Undanfarin ár hefur Krabbameinsfélag Íslands verið með árvekni- og fjáröflunarátak sem ber yfirskriftina Bleika slaufan og er Bleiki dagurinn einn liður í því. Fjölmargir vinnustaðir, bæði fyrirtæki og stofnanir, hafa tekið þátt undanfarin ár og hafa notað tækifæri til að sýna samstöðu og um leið gleðja starfsmenn sína með uppákomum og veitingum í tengslum við Bleika daginn. Margir bíða þessa dags með eftirvæntingu og njóta þess að brjóta upp hversdagsleikann með þessum hætti um leið og góðu málefni er lagt lið.

Kræsingar sveipaðar bleiku sem gleðja auga og munn

Á bleika deginum er hægt að gera heilmargt til að taka þátt, það þarf ekki að vera flókið eða dýrt. Til dæmis er hægt að skipuleggja bleikt morgunkaffi eða bleikt hádegisverðarboð í vinnunni og allir gætu til að mynda komið með eitthvað á hlaðborð. Enn fremur er hægt að koma fólki á óvart með bleikum glaðningi en fjölmörg fyrirtæki leggja málefninu lið með því að bjóða upp á ýmiss konar kræsingar með bleiku ívafi. Til að mynda eru mörg bakarí og kökukræsingabúðir sem baka og skreyta bollakökur og kökur í tilefni dagsins. Einnig er tilvalið að klæðast einhverju bleiku í tilefni dagsins eða hreinlega setja eitthvað bleikt á borðið. Bleik blóm lífga upp á tilveru eða hvað eina sem fólki dettur í hug að gera. Sé tíminn naumur má líka leita til þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem leggja Bleiku slaufunni lið með bleiku góðgæti og töfra fram kræsingar með bleiku ívafi fyrir starfsmenn.

Mynda gleðina í bleika minningabankann

Síðastliðin ár hefur það færst í aukana að fyrirtæki og stofnanir taki þátt og sendi Krabbameinsfélaginu skemmtilegar, bleikar myndir af sér, vinnufélögum og bleikum sælkeraveislum sem slegið hefur verið upp í tilefni dagsins. Krabbameinsfélagið hefur hvatt alla til að senda sér myndir frá þessum degi á netfangið bleikaslaufan@krabb.is og jafnframt sett myndirnar inn á fésbókarsíðu félagsins sem og aðra miðla eins og Instagram.

Þá er upplagt að merkja myndirnar #bleikaslaufan.

Berglind Hreiðarsdóttir, einn vinsælasti köku- og matarbloggari landsins, sem heldur úti síðunni Gotterí og gersemar, gotteri.‌is, deilir hér með lesendum einni uppskrift að gómsætum bleikum Cinnabon-kanilsnúðum sem eiga vel við á Bleika deginum fyrir unga sem aldna.

Það má skreyta kökurnar á misjafnan hátt á Bleika daginn. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Bleikir „Cinnabon“ kanilsnúðar

670-700 g Polselli 00 hveiti

1 pk. þurrger (11,8 g)

120 g smjör (+ til að smyrja formið)

250 ml nýmjólk

100 g sykur

1 tsk. salt

2 egg (pískuð)

2 tsk. vanilludropar

Setjið hveiti og þurrger í hrærivélarskálina og blandið saman (haldið eftir hluta af hveitinu þar til í lokin). Bræðið smjörið í potti og hellið síðan mjólk, sykri og salti saman við og hrærið þar til ylvolgt. Hellið saman við hveitiblönduna og hrærið með króknum á meðan. Bætið eggjum og vanilludropum saman við og síðan restinni af hveitinu ef þurfa þykir. Egg eru misstór og því þarf mismikið hveiti. Setjið hveiti þar til deigið hnoðast vel saman en er samt frekar blautt í sér, þó ekki þannig að það festist við lófana. Náið því þá úr hrærivélinni og hnoðið saman í höndunum, penslið skál með matarolíu og veltið deiginu upp úr henni, plastið og leyfið að hefast í um 45 mínútur. Fletjið þá út á hveitistráðum fleti í um 40 x 50 cm og smyrjið kökuform/eldfast mót sem er um 25 x 35 cm að stærð vel með smjöri.

Fylling

220 g púðursykur

3 msk. kanill

100 g smjör við stofuhita

Smyrjið útflatta deigið jafnt með smjöri. Blandið saman sykri og kanil og dreifið yfir deigið. Rúllið upp frá lengri endanum, skiptið niður í 12 einingar og raðið í formið. Plastið að nýju og leyfið að hefast aftur í um 45 mínútur. Bakið þá við 180°C í um 20-25 mínútur eða þar til snúðarnir verða vel gylltir. Leyfið snúðunum að standa í um 15 mínútur áður en kremið er sett á þá.

Bleikt rjómaostakrem

100 g rjómaostur við stofuhita

60 g smjör við stofuhita

200 g flórsykur

1 tsk. vanilludropar

Salt af hnífsoddi

Bleikur matarlitur (sé þess óskað) og kökuskraut

Þeytið saman rjómaost og smjör.Bætið flórsykri saman við í nokkrum skömmtum, skafið niður á milli. Bætið salti og vanilludropum við í lokin ásamt matarlit, sé þess óskað og smyrjið yfir volga snúðana ásamt því að strá kökuskrauti yfir. ■

Bleiki dagurinn verður eftir viku. Þá er frábært að klæðast bleiku.