„Það verður mikið húllumhæ hjá okkur í kringum þetta afmæli. Við erum búin að fá til okkar erlendan gestakennara. Hann heitir Aaron Gassor, er YouTube-stórstjarna og hefur komið hingað einu sinni áður. Svo ætlum við að krydda þetta með alls konar leikjum og skemmtilegheitum og leyfa krökkunum okkar að prufa sig í því sem hann er að gera. Við ætlum að grilla og bjóða upp á kræsingar eins og afmælisköku,“ segir Sigursteinn Snorrason, ritari Taekwondosambandsins, en hann er einnig þjálfari yngri landsliða og yfirþjálfari hjá Mudo Gym.

Taekwondo er kóresk bardaga-og sjálfsvarnaríþrótt. Hún er þróuð út frá gamalli hernaðarlist Kóreumanna og byggist fyrst og fremst á sjálfsvörn þar sem fæturnir spila aðalhlutverkið.

Taekwondo skiptist í tvo meginhluta: Poomse og Sparring. Poomse er sú hlið taekwondo þar sem einn aðili framkvæmir tæknilegu hlið hennar. Sparring er aftur á móti sjálf bardagahliðin þar sem tveir eða fleiri aðilar koma saman og berjast.

Taekwondo er viðurkennd af Alþjóðlega Ólympíuráðinu og var sýningaríþrótt á leikunum 1988 og 1992. Taekwondo var síðan í fyrsta skipti með sem opinber keppnisíþrótt á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000.

Covid-tíminn erfiður

Spurður hvernig íþróttinni vegni hér heima á þessum tímamótum segir Sigursteinn: „Sannast sagna þá hefur það gengið upp og ofan. Covid-heimsfaraldurinn var greinilega erfiður fyrir mörg félög og það hefur fækkað mjög mikið hjá sumum félögum. Ef andstæðingarnir hætta að mæta til leiks þá getur verið erfitt að keppa í íþróttinni. Við í Taekwondosambandinu lítum í rauninni á þetta sem núllpunkt og ætlum að vekja aftur upp þessi félög sem standa tæpt. Sem betur fer erum við með nokkur félög sem standa enn mjög sterkt og við ætlum að nýta okkur þeirra hjálp til að aðstoða hin og stefnan er sú að eftir eitt ár verði þetta komið aftur á svipaðan stað,“ segir Sigursteinn, sem hefur haft í nógu að snúast við að undirbúa afmælishátíðina sem og að þjálfa.“

Stunda margir krakkar íþróttina?

„Já, mjög margir. Í félaginu sem ég kenni hjá, Mudo Gym, byrjum við til að mynda að taka inn tveggja ára gömul börn. Fólk spyr mig að því hvort það sé ekki allt of ungt en þá vitna ég í það þegar frændi minn byrjaði að æfa, enn þá með bleyjuna tveggja ára gamall. Í dag er hann sá yngsti með svarta beltið í fjórðu gráðu. Hann náði því þegar hann var tvítugur. Þessir krakkar sem eru hjá okkur eru farin að láta að sér kveða á alþjóða vettvangi. Þau byrjuðu flest frekar ung, sýndu strax mikinn metnað og eru að uppskera.“

Ætlum að blása í seglin

Sigursteinn segir að verið sé að endurvekja landsliðsstarfið eftir erfiðan tíma í Covid-faraldrinum. „Landsliðsverkefnin lágu meira og minna niðri í 2-3 ár á Covid-tímanum og Alþjóðlega Taekwondosambandið aflýsti í rauninni öllum mótum í átján mánuði. Þegar mótin fóru svo aftur af stað þá fóru nánast engir að keppa af því að öðru hverju móti var aflýst eða frestað vegna heimsfaraldursins. Það má eiginlega segja að það hafi verið tveggja ára keppnispása hjá öllum.

En núna ætlum við að blása í seglin. Við ætlum að hóa öllum saman á afmælishátíðina og um næstu helgi ætlum við byrja á landsliðsúrtaki fyrir unglingastarfið okkar. Þar á eftir verður fyrsta bikarmótið í næstum tvö ár haldið og svo eftir það má segja að á hverri helgi fram að áramótum verði einhver viðburður á vegum sambandsins,“ segir Sigursteinn.

Afmælishátíðin fer fram í íþróttahúsinu Strandgötu í Hafnarfirði á morgun. Hún hefst klukkan 10.30 og stendur fram til klukkan 15.

Mikill áhugi er hjá börnum og ungmennum á taekwondo-íþróttinni hér á landi.SFRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI
Taekwondo er bardagaíþrótt en það er nauðsynlegt að teygja vel á öllum vöðvum.