Einar Þorsteinsson, fréttamaður á RÚV, biður landsmenn um að spritta sig, þvo og gæta sóttvarnaráðstafana svo hann geti gift sig fljótlega.

Einar og Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra, hafa nú þurft að aflýsa fyrirhuguðu brúðkaupi sínu tvisvar vegna heimsfaraldursins, nú síðast í gær með fjögurra daga fyrirvara.

„Við erum bara hress og kát en auðvitað er hundleiðinlegt að þurfa að fresta þessu aftur.“

Ætluðu að gifta sig á Spáni

Upphaflega stóð til að halda brúðkaup þeirra á Spáni í október næstkomandi en þau plön breyttust þegar margumtalaður vágestur var farinn að gera atlögu að samfélagi manna.

„Þegar Spánn fór á hliðina í vor þá var alveg klárt að það var ekki hægt að bjóða gestum upp á það að vera með brúðkaup þar.“

Mikil óvissa hafi verið með framgang faraldursins í mars þegar þau ákváðu að aflýsa Spánarbrúðkaupinu og skipuleggja annað brúðkaup á Íslandi í sumar.

„Þetta leit fáránlega vel út núna síðustu tvo mánuði þegar allt var á niðurleið svo við vorum bara mjög bjartsýn á að þetta myndi ganga og það hefði gengið ef þetta hefði ekki blossað aftur upp núna, fjórum dögum fyrir brúðkaup.“

Lítið spennt fyrir snertilaustri athöfn

Þegar aftur fór að bera á smitum tóku Einar og Milla þá ákvörðun að doka eftir úrskurði heilbrigðisyfirvalda og sjá hvort breytingar yrðu gerðar á sóttvarnaráðstöfunum.

Þegar hertar takmarkanir voru kynntar í gær hafi þau séð sæng sína útbreidda og ákveðið að fresta athöfninni sem fram átti að fara í Borgarfirði.

„Þegar við sáum hvernig smitunum var að fjölga vissum við líka að það yrði allt annar bragur á brúðkaupinu undir þessum kringumstæðum. Við viljum ekki vera að biðja gesti um að koma í athöfn sem á að vera yndisleg og innileg og falleg, með grímur og mega ekki knúsast og kjassast.“

Einar segir þau þó sýna aðgerðum stjórnvalda fullkominn skilning og taka þessu með hógværð.

Það er mjög leiðinlegt að þessi sýking hafi náð að koma upp aftur og vonandi batnar þeim fljótt sem eru að glíma við þetta núna. Ég treysti almannavörnum fullkomlega til að berja þetta niður, það er hagur allra.“