Tónlistarkonan Blankiflúr mun á fimmtudag, 28. október, halda útgáfutónleika á Gauknum en hún gaf út sína fyrstu plötu Hypnopompic í apríl 2021. Blankiflúr, eða Inga Birna Friðjónsdóttir, er fatahönnuður sem fór síðar að semja tónlist. Hún gaf á dögunum út myndband við lagið Above A Fall.

Myndbandið vann hún í samstarfi við kvikmyndagerðamanninn Árna Rúnar Hrólfsson. Hún segir myndbandið leiða áhorfandann inn í samblöndu af mikilfenglegri náttúru og veru sem sækir orku sína og innblástur í hæðótt landslag Íslands.

„Þessi plata sem er að koma út er í rauninni algjör grautur. Ég er ekki beint að fylgja neinni stefnu annarri en hugmyndaflugsins míns. Ég vinn hvert lag út frá laginu sjálfu en ekki út frá þeirri stefnu sem ég vil halda mig við. Þetta er í raun algjör frumraun og tilraun til að átta mig á því hvernig listamaður ég er. En ég myndi flokka þetta sem tilraunakennt popp eða art popp,“ sagði Inga Birna í viðtali við Fréttablaðið um plötuna í mars á þessu ári.

Blankiflúr kemur fram á fimmtudag ásamt hljómsveit og flytur lögin af plötunni ásamt nýju efni sem væntanlegt er á nýju ári.

Í hljómsveitinni spila Stefán Örn Gunnlaugsson, Jón Valur Guðmundsson og Kristófer Nökkvi Sigurðsson.

Hægt er að tryggja sér miða á tix.is eða borga sig inn við hurð en húsið opnar klukkan 20:00

Tónleikarnir eru á fimmtudag.
Mynd/Aðsend

Myndbandið má sjá hér að neðan.