Rapparinn Slick Rick, sem hefur haft mjög mikil áhrif á hipphopp-tískuna í gegnum árin, á 56 ára afmæli í dag. Slick Rick er þekktur fyrir stórar og fyrirferðarmiklar gullkeðjur, lepp fyrir auga og sérhannaða Wallabee-skó frá Clarks, en hann er líka frumkvöðull þegar kemur að því að klæðast fínum tískumerkjum og jakkafatajökkum í yfirstærð, sem hefur haft mikil áhrif.

Slick Rick, sem heitir réttu nafni Richard Martin Lloyd Walters, fæddist í London en flutti til Bronx-hverfis í New York-borg þegar hann var 11 ára. Hann sló í gegn á 9. áratugnum og hefur haldið áfram að vera áhrifamikill síðan þá og er í dag eitt þekktasta andlit og nafn rappheimsins, þrátt fyrir að vinsældir hans hafi dalað og hann hafi ekki gefið út nýja plötu síðan árið 1999.

Slick Rick hefur gaman af því að blanda fínum og dýrum merkjum og aukahlutum saman við einfaldan götustíl. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Alltaf í eins skóm

Í næstum 30 ár hefur Slick Rick valið að klæðast sérhönnuðum þykkbotna Wallabee-skóm frá Clarks með alls kyns breytingum og skrauti. Hann hefur haldið tryggð við merkið þrátt fyrir að orðinn sé til meiriháttar iðnaður í kringum strigaskó eftir að rapp náði almennum vinsældum. Fyrr í mánuðinum gaf hann líka út örheimildarmynd í samstarfi við Clarks um tengsl hans við skóna í gegnum árin.

„Stundum finnum maður fína skó, en Clarks Wallabee-skórnir verða alltaf mínir uppáhalds,“ segir Slick Rick sjálfur. „Þeir hafa ákveðið „swag“ og eru flottir á fæti og hafa verið það síðan á 9. áratugnum. Þangað til ég sé aðra skó sem eru jafn fínir á fótum minnihlutahóps verð ég að nota það sem virkar.“

Slick Rick er meðal annars þekktur fyrir að hafa gengið í alls kyns sérhönnuðum Wallabee-skóm frá Clarks síðustu þrjá áratugi. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Hannar allt sjálfur

Slick Rick líkir samsetningu klæðnaðar síns við handverk. Hann hannar sjálfur klæðnaðinn og alla aukahlutina sem hann notar á sviði og þar sýnir hann oft margbrotnar samsetningar. Hann gerir oft breytingar á fatnaði sem hann fær frá lítt þekktum merkjum og kynnir þannig merkin fyrir nýju fólki.

„Ég gerði það flott að ganga í merkjum eins og Bally og Kangol og skapaði meiri tekjur fyrir þessi fyrirtæki en nokkru sinni áður,“ segir Slick Rick. „Ég hjálpaði líka við að kynna Clarks-merkið á sama hátt. Aðdáendur eru fljótir að bera kennsl á einstakan og einkennandi stíl minn.“

Þessi mynd frá árinu 1991 sýnir hvernig útlit Slick Rick hefur þróast í gegnum árin, en um leið hvað hann er duglegur að halda í sérkennin. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Menningararfleifðin

Slick Rick skapaði útlit sem varð hluti af grunninum í hipphopp-tískunni og vegna þess er einn af höttunum hans og augnleppur til sýnis á þjóðminjasafni Bandaríkjamanna af afrískum uppruna (National Museum of African American History).

Það er ekki hægt að neita því að „swag-ið“ bókstaflega drýpur af Slick Rick og því er ekki að undra að hann hafi verið svo áhrifamikill í gegnum tíðina. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Þegar Slick Rick kom fyrst fram á sjónarsviðið var stíll hans áður óséð blanda af tignarleika og fínleika í bland við götutísku og það er mikilvægasta arfleifð hans í tískuheiminum. Hann kynnti útlit sem hafði gríðarleg áhrif á hipphopp-tísku. Útlit hans hefur þróast í gegnum tíðina, en hann hefur alltaf haldið í sérkennin.

Slick Rick er ófeiminn við sterka og skæra liti en leggur mikla áherslu á að litirnir passi fallega við dökka húð hans. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY