Kammersveitin Elja heldur í tónleikaferðalag um landið 30. júlí til 7. ágúst. Stjórnandi er Bjarni Frímann Bjarnason, sem er einn af stofnendum Elju.

„Þetta verður í fyrsta sinn sem við spilum annars staðar en í Reykjavík. Okkur hefur langað til að fara í tónleikaferðalag síðan við stofnuðum sveitina,“ segir Björg Brjánsdóttir sem er flautuleikari í Elju.

Fyrstu tónleikar Elju voru haldnir í desember 2017 en sveitin var stofnuð ári fyrr. Þar er um 25 manna kjarni ungs tónlistarfólks. „Okkur vantaði vettvang til að spila tónlist í stærra formi en bara í litlum kammerhópum. Við viljum að tónleikar okkar séu afslappaðir og blöndum saman alls konar formum. Það hefur skilað sér í breiðum áheyrendahópi,“ segir Björg. „Við vinnum á annan hátt en margar hefðbundnar sveitir, skiptumst á að leiða deildirnar og allir meðlimir geta komið að tillögum að verkum og verkefnum.“

Frumflytja harmonikkukonsert

„Við leggjum áherslu á að spila verk sem eru ekki oft spiluð, bæði gömul klassísk verk og mikið af nýjum verkum. Í tónleikaferðinni frumflytjum við harmonikkukonsert eftir Finn Karlsson og þar er einleikari Jón Ásgeir Ásgeirsson. Það er ekki mikið til af harmonikkukonsertum og í verki sínu vísar Finnur í gamla harmonikkutónlistarformið,“ segir Steinunn Vala Pálsdóttir, sem er, eins og Björg, flautuleikari í sveitinni.

Tónleikaferðin stendur í viku. „Við byrjum í æfingabúðum á Hólum í Hjaltadal og höldum síðan fyrstu tónleikana í Miðgarði í Skagafirði. Við tökum síðan þátt í Berjadögum á Ólafsfirði, höldum þar eigin tónleika og spilum einnig á Óperugala. Þaðan förum við á Vopnafjörð og síðustu tónleikarnir úti á landi verða á Kirkjubæjarklaustri. Við endum svo í Háteigskirkju,“ segir Björg.

Konfektkassa-efnisskrá

Efnisskráin er fjölbreytt. „Við lögðum áherslu á að vera ekki með erfiða tónlist áheyrnar. Þetta er konfektkassa-efnisskrá, mjög kraftmikil,“ segir Steinunn.

Auk frumflutnings á harmonikkukonserti Finns verður flutt verk eftir Caroline Shaw, Entrácte. „Þetta er strengjaverk frá árinu 2011 eftir spennandi tónskáld, mjög áheyrilegt og strengjaleikararnir í hljómsveitinni völdu það til flutnings. Við flytjum einnig verk eftir Stravinsky, Dumbarton Oaks, sem er mjög rytmískt og hressilegt verk og síðan hina orkumiklu Ítölsku sinfóníu Mendelssohns,“ segir Björg.