Leikkonan Blake Lively hefur gjörbreytt útliti sínu við tökur á nýrri bíómynd og birti mynd af sér í vikunni skarta skálaklippingu. Leikkonan hefur löngum verið þekkt fyrir síða ljósa lokka og er umbreytingin því veruleg þegar horft er á stutt músalitað hárið sem hún skartar nú.
Lively breytti þó ekki aðeins um hárgreiðslu heldur fór hún í förðun og var látin líta út fyrir að vera aðeins veðraðri en aðdáendur leikkonunnar eiga að venjast.
Fylgjendur Gossip Girl stjörnunnar virðast flestir taka breytingunum með semingi og segja leikkonuna enn vera augnayndi þrátt fyrir að hún skarti ekki sínum venjulega Hollywood glamúr á myndinni.
Hefnir sín á illmennum
Lively leikur aðalhlutverkið í bíómyndinni The Rythm Section sem kemur út í lok janúar. Þar leikur hún konu sem hyggst hefna sín á þeim sem urðu fjölskyldu hennar að bana. Mótleikari hennar er enginn annar hjartaknúsarinn Jude Law og bíða margir spenntir eftir að sjá afrakstur samstarfs þeirra.