Starfs síns vegna er Hilmar Freyr Kristinsson yfirleitt mjög fínn og snyrtilega til fara. Hann er starfsmaður fjármálafyrirtækisins Kviku en segist þrátt fyrir það ekki vera of formlegur. „Dagsdaglega er ég vinnunnar vegna í jakkafötum eða blazer-jakka og stökum buxum, skyrtu og með bindi. Ég hef séð til þess hingað til að eiga nóg af stökum buxum og blazer-jökkum þannig að ég sé ekki alltaf í jakkafötum en samt auðvitað fínn. Utan vinnunnar þykir mér hins vegar langbest að vera í „skinny“ gallabuxum og hversdagsskyrtu eða góðri peysu sem ég get þess vegna parað saman. Með þessu er ég oft í t.d. hvítum strigaskóm eða einum af Adidas NMD skónum sem ég hef sankað að mér.“

Hilmar Freyr er 25 ára gamall og uppalinn í Ártúnsholti í Reykjavík. Hann útskrifaðist með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík (HR) árið 2015 og hóf strax í kjölfarið störf hjá Kviku banka sem hann segir vera frábæran vinnustað. „Utan þess hef ég kennt dæmatíma í HR frá því á lokaárinu mínu og verið hlutastarfsmaður í Hugo Boss búðinni.“

Líkar við litina

Hilmar hefur haft áhuga á tísku eins lengi og hann man eftir að eigin sögn. „Hann jókst þó til muna eftir að ég hóf að vinna við þetta með háskóla. Þá breikkuðu líka fatapælingarnar yfir í jakkaföt, blazer-jakka og þess háttar. Blái liturinn er í mjög miklu uppáhaldi hjá mér og hefur verið lengi. Annars þykir mér vínrauður, brúnn og mosagrænn líka mjög flottir litir og þeir ganga líka vel við blátt.“

Honum finnst þægileg föt almennt einkenna klæðnað ungra manna í dag. „Þar á ég t.d. við þröngar gallabuxur í bland við joggingbuxur sem eru auðvitað víðari. Sama má segja um peysur og úlpur, þær eru stærri og lausari. En svo fer það auðvitað bara eftir manngerðum en þetta er algengara finnst mér.“

Hvernig fylgist þú helst með tískunni? 

Eins og flestir þá nota ég Instagram mjög mikið. Þar fylgi ég þessum helstu á borð við GQ og The Rake Online og svo merkjum á borð við Ralph Lauren, Hugo Boss og Balmain.

Hvaða flík hefur þú átt lengst og notar ennþá? 

Ætli það sé ekki blár Boss blazer-jakki sem ég keypti fyrir nokkrum árum. Þægileg flík sem gengur bæði við fínni buxur og líka gallabuxur. Ef maður fer í stuttar helgarferðir þar sem þess er stundum krafist að maður sé í fínni kantinum er blár blazer gráupplagður.

Áttu minningar um gömul tískuslys? 

Engin stórslys, ótrúlegt en satt. Ég á það eftir.

Bestu og verstu fatakaup? 

Þar má helst nefna Woolrich-úlpu sem fæst í Herragarðinum en hana keypti ég fyrr í vetur. Það gerir mjög mikið fyrir mig að geta klæðst úlpu sem er bæði hlý og flott og hægt er að klæðast yfir jakkaföt.

Mér detta engin slæm kaup í hug heldur önnur mjög góð kaup. Fyrir nokkrum árum keypti ég skóhlífar sem er algjört lykilatriði ef maður vill ekki þurfa að endurnýja fínu leðurskóna sína árlega. Ég hendi mér í þær áður en ég fer út í rigninguna eða slabbið og þær verja skóna þar til ég kem aftur inn og tek þær af. Það er ekkert vit í því að kaupa sér fína leðurskó ef maður fer ekki vel með þá líka.

Eyðir þú miklu í föt miðað við jafnaldra þína? 

Já, það er nær óhjákvæmilegt þegar maður hefur bæði áhuga á fötum og er með annan fótinn í mjög flottri fatabúð.

Notar þú fylgihluti? 

Ég er ekki mikið fyrir fylgihluti og er t.a.m. ekki mikill úrakall – Apple Watch dugar mér alveg ágætlega. En bindi nota ég flesta daga vikunnar.