Blaðamannafundur í kjölfar fyrri undanúrslita í Eurovision í Tórínó hófst rétt í þessu. Íslenska framlagið var meðal þeirra 10 sem komust áfram.

Á fundinum drógu íslensku keppendurnir úr potti um hvar þau lentu í lokakeppninni, og drógu seinni hlutann.

Systurnar báru fána trans-fólks og fána Úkraínu um hálsinn á blaðamannafundinum.

Fyrsta spurning er á þá leið, hvers vegna þeim þyki mikilvægt að vera málsvari trans-fólks í keppninni.

Sigga lýsir því að sonur hennar sé trans, og hún hafi ekki áttað sig á því hversu þröngsýnt fólk væri fyrr en það gerðist.

"Við viljum bara dreifa kærleika og biðja foreldra að elska börnin sín án skilyrða," segir hún.

Hvernig er að koma á eftir Hatara og Daða Frey, að vera með lágstemmt lag?

"Við týndumst aðeins í stórum lögum, við erum lítil þjóð og týndum okkur í Evrópu líka.

Við vorum bara að einbeita okkur að því að færa fólki von og færa fólki boðskap lagsins.

Við viljum styðja við fólk sem er ekki frjálst, fólk sem á um sárt að binda eins og íbúa Úkraínu. Við viljum halda nafni Úkraínu á lofti og láta ekki fjölmiðla normalísera stríðið."

Norska ríkissjónvarpið greinir frá því að íslensk öskur hafi heyrst um alla blaðamannahöllina þegar Ísland var kynnt í hópi sigurlandanna í kvöld.