Skór sem hannaðir voru af söngkonunni Katy Perry hafa verið teknir úr sölu í Bandaríkjunum efitr að netverjar vöktu athygli á að andlit á skónum líktist svokölluðum „blackface“ andlitsmálningu þar sem líkt er eftir andliti þeldökks fólks á niðrandi hátt.

Í yfirlýsingu segir söngkonan að sér þyki leitt að hönnun sín hafi verið túlkuð á þennan veg, hún hafi ekki ætlað sér að valda neinum sársauka með skónum.

„Ég varð mjög leið þegar mér var sagt frá því að skónum væri líkt við „blackface.“ Ætlun okkar var aldrei að meiða neinn og við höfum fjarlægt þá þegar í stað,“ segir Perry en umræddir skór komu í nokkrum litum, meðal annars svörtum, bleikum, bláum, rauðum og silfurlituðum. 

Ekki er lengra síðan en í síðustu viku að fataframleiðandinn Gucci tók sömu ákvörðun og tók úr sölu svarta rúllukragapeysu af sömu ástæðu en sú peysa vakti undrun meðal netverja sem bentu á líkindi hennar við hinn svokallaða „blackface farða.