Sædís Anna Jónsdóttir auglýsti í vikunni í hópnum Skreytum hús eftir aðstoð fólks við að gera upp herbergi sonar vinkonu hennar. Hún segir frá því í færslunni að maður vinkonu hennar glími nú við ólæknandi krabbamein og að herbergi sonar þeirra hafi setið á hakanum eftir að veikindin komu upp.
„Núna er það komið á lokastig því miður. Þau hafa haft miklar væntingar og vilja til heimilis sem hefur allt setið a hakanum. sérstaklega hafa þau viljað gera fallegt og skemmtilegt herbergi fyrir 4ra ára son sinn sem elskar Minecraft, Lego og super Mario,“ segir Sædís í færslunni og spurði svo hvort einhverjir í hópnum væru til í að aðstoða við að stílísera herbergið fyrir smá pening.
„Það vantar engin húsgögn, heldur bara mála og skreyta. Velja liti, ráðleggingar með hvað er flott og hentar og slíkt. Einhvern með skemmtilegt ímyndunarafl. Væri svo gaman að geta glatt strákinn (og foreldrana),“ segir Sædís í færslunni.

Viðbrögðin stóðu ekki á sér en aðeins stuttu eftir að færslan fór inn var fólk búið að bjóðast til þess að mála og hanna herbergið auk þess sem þeim hafði verið boðin málning og áhöld til að koma á veggina. Í samtali við Fréttablaðið segir Sædís að auk þess hafi kona sent skilaboð sem ætlar að búa til bútasaumsteppi og listamaður sem vildi gera listaverk á vegg drengsins.
Sædís segir að verkið sé eins og stendur fullmannað en að vinkona hennar og maðurinn hennar séu núna að velta því fyrir sér hvort þau eigi að fá að nýta aðstoðina annars staðar.
„Þau keyptu húsið með það í huga að laga það og fylla það af börnum. En það er pæling núna hvort það væri skynsamlegra fyrir hana að selja húsið og byrja að nýju annars staðar. Og fá aðstoðina þar. Áfallið kemur í raun þegar þau eru að safna fyrir framkvæmdunum,“ segir Sædís.
Hún segist þakklát öllum þeim sem að buðu fram aðstoð sína og að þau hafi öll tekið vel í það að bjóða fram aðstoðina.
„Við bjuggumst ekki við svona miklum viðbrögðum en hún ætlar að taka sér nokkra daga í að hugsa málið,“ segir Sædís. „Það er alltaf gaman að sjá svona samhug.“