Banda­ríski leikarinn Aaron Paul og sjón­varps­þátta­fram­leiðandinn Vince Gilligan voru til við­tals í fyrsta skiptið um glæ­nýju Breaking Bad myndina El Camino sem sýnd verður á Net­flix í októ­ber. Í við­talinu segist leikarinn meðal annars ekki hafa búist við því að mæta aftur til leiks í hlut­verki sínu sem Jessi­e Pink­man.

„Ég elskaði Jessi­e virki­lega mikið,“ segir leikarinn meðal annars í við­talinu. Þættirnir um and­feta­mín­fram­leiðandann Walter White og fé­laga hans, Jessi­e Pink­man, hafa notið gífur­lega vin­sælda sem síst hafa dalað eftir að síðasti þátturinn var sýndur árið 2013. Þá hefur svo­kallaða „spin-off“ serían Bet­ter Call Saul um lög­fræðinginn James McGill verið hrósað í há­stert af gagn­rýn­endum.

„Ég þekkti hann betur en nokkur annar, en það var þungu fargi af mér létt að leggja hettu­peysuna á hilluna og ganga í burtu,“ segir leikarinn. „Ég hélt að þetta væri síðasta kveðjan og ég var sáttur.“

Þegar um­ræða kom upp um að gera fram­halds­mynd með Jessi­e sem aðal­per­sónuna segist Paul hafa treyst fram­leiðandanum, Vince Gilligan, sem fram­leiddi einnig Breaking Bad og Bet­ter Call Saul, betur heldur en nokkrum öðrum.

„Ég er eins og allir aðrir á plánetunni - mér finnst Vince og hinir hand­rits­höfundarnir virki­lega hafa neglt endirinn á Breaking Bad og hvers vegna að eyði­leggja það?“ segir leikarinn. „En þetta er Vince sem við erum að tala um. Ég myndi elta Vince inn í elds­voða. Ég treysti honum það mikið. Ég myndi gera allt sem hann biður mig um.“

Í um­fjöllun Hollywood Reporter kemur meðal annars fram hvernig fram­leiðslu­teymið hafi tekið upp nýju myndina í full­kominni leynd í Nýju-Mexíkó. Meðal annars hafi þeir látið eins og þeir væru að taka upp aug­lýsingu byggða á Breaking Bad, enda að nota sama hús­bíl við tökur og birtist í upp­runa­legu Breaking Bad þáttunum.

Aaron segir að sér hafi reynst auð­velt að setja sig aftur inn í hlut­verkið sem Jessi­e Pink­man. „Það var virki­lega auð­velt að hoppa aftur inn í þetta og koma mér í and­legt og til­finninga­legt á­stand Jes­se, af því að ég upp­lifði sjálfur allt sem hann gerði og meira til og í hrein­skilni finnst mér eins og hluti af mér hafi upp­lifað það sama.“

El Camino kemur út á Netflix 11. október næstkomandi.