Um síðustu helgi birtust fréttir á öllum helstu netmiðlum hérlendis af ungum dreng, Natani Degi Benediktssyni, sem er að gera það gott í norsku útgáfunni af The Voice. Allir dómararnir sneru stól sínum við og sóttust eftir að fá að vinna með Natani. Einn dómaranna brast meira að segja í grát yfir einstökum flutningi hans á laginu Bruises með Lewis Capaldi. Natan á sér áhugaverða sögu og fallega hugsjón. Hann óskar þess helst að geta mögulega sýnt fordæmi fyrir ungt fólk þegar kemur að því að láta drauma sína rætast.

Þegar hann er beðinn um að lýsa sér segist Natan vera nokkuð rólegur og njóta þess að vera einn með hugsunum sínum.

Allir dómararnir snéru sér við fyrir Natani síðasta föstudag. Mynd/TV2

„Mér finnst gott að gleðja aðra og ég reyni að vera duglegur að setja mig í spor annarra. Mér finnst það mikilvægt. Ég hef oft reynt að passa aðeins betur inn í samfélagið en ég dregst aftur til baka. En ég er núna persónan sem ég trúi að mér sé ætlað að vera,“ segir Natan. Hann viðurkennir að í sér séu tveir ólíkir pólar. „Ég er einfari en samt félagslyndur í kringumstæðum þar sem ég hef styrk, þar sem mér finnst ég hafa eitthvað fram að færa.“

Natan er fæddur í Reykjavík árið 1999. Hann var orkumikið barn og sífellt að finna upp á ævintýrum með vinum sínum.

„Ég var þakklátur krakki. Eitt skiptið gáfu mamma og pabbi mér bara hnetur í jólagjöf og ég varð yfir mig glaður, svo þau yrðu nú ekki leið yfir því eða héldu að ég væri óánægður með gjöfina,“ segir hann og hlær. „Svo sáu þau hvað ég var þakklátur, sögðu mér að loka augunum og þá fékk ég aðalgjöfina,“ rifjar Natan upp.

Veit fátt betra en að gleðja

Að sögn föður hans og dyggasta stuðningsmanns, Benedikts Viggóssonar, var Natan mikill gleðigjafi strax frá fæðingu.

„Hann vildi hafa líf og fjör í kringum sig og var óhræddur við að skapa það fjör sjálfur. Hann er falleg sál með risastórt hjarta. Hann samgleðst öðrum auðveldlega og veit fátt betra en að gefa og gleðja aðra. Hann er staðfastur, ákveðinn og fer eigin leiðir, pabba sínum til mikillar armæðu stundum. En ég get sennilega ekki sakast við hann um það, þar sem hann hefur líklegast erft það frá mér. Við tökumst stundum á en vinátta okkar og gagnkvæm virðing sigrar alltaf að lokum,“ segir Benedikt um son sinn.

Benedikt segir Natan Dag snemma hafa sýnt áhuga á tónlist og söng.

„Hann leit mikið upp til bróður síns, Björns Ísaks, og vinar hans Patreks. Þeir eru fjórum árum eldri og voru oft að búa til tónlist og rappa. Áhugi hann á söng kviknaði fyrst fyrir alvöru þegar hann sá Justin Bieber syngja. Þá sagðist hann ætla að verða eins og hann. Ég heyrði strax að hann var mjög lagviss og það var einhver sérstakur, fallegur tónn í röddinni sem ég heyri enn í dag,“ bætir Benedikt við.

Natan tók sig til og gerði nokkur myndbönd þar sem hann syngur af einlægni og miklum krafti fyrir krakka á þessum aldri. Viðbrögðin voru því miður ekki þau sem hann vonaðist eftir.

„Ég fékk góð viðbrögð frá mínum nánustu en tók neikvæðu viðbrögðin frá hinum mun meira inn á mig. Strákar úr skólanum og í fótboltanum með mér endurtóku setningarnar úr myndbandinu í stríðnistón. Ég fékk þá tilfinningu að þetta væri asnalegt og hætti því alveg að eltast við drauminn um að verða eins og Bieber. Á þessum tíma hætti ég því að syngja að mestu þar til síðar,“ segir Natan.

Natan með föður sínum Benedikt, en þeir eru nú búsettir í Lillehammer.
Mynd/Aðsend

Hann ber þó engan kala til þeirra sem hæddust að honum á þessum tíma.

„Þetta voru auðvitað bara börn. Ég er ekki týpan sem hugsar „look at me now, losers“, af því við vorum bara börn og börn geta verið eins og þau eru. Þau hugsa stundum ekki áður en þau tala. „No hard feelings“ núna. Nokkrir af þessum strákum voru bestu vinir mínir fyrir þetta og svo aftur í 7. til 10. bekk,“ segir hann.

Natan Dagur hefur verið duglegur að syngja seinustu þrjú, fjögur árin, en þó mest í einrúmi.

„Ég hef reynt að taka skrefið með því að syngja fyrir framan fleiri og fleiri með tímanum. Sjálfur hef ég ekkert mikla trú á því að vinsældir eða frægð muni veita mér einhverja hamingju. Mig langar bara að halda mér uppteknum við að elta drauma mína, verða betri í að syngja og koma fram á sviði, skrifa mín eigin lög og vonandi hjálpa öðrum sem hafa gengið í gegnum það sem ég gerði með því að segja mína sögu og með tónlistinni minni,“ segir Natan.

Natan heldur mikið upp á kanadíska tónlistarmanninn Justin Bieber, en faðir hans segir marga hafa haft orð á því að nokkur líkindi séu með þeim.

Hélt að þetta væri grín

Natan hafði lengi langað til að taka þátt í keppni í þessum anda. Hann hafði gaman að því að horfa á klippur úr The Voice, X-Factor og Got Talent keppnunum.

„Eftir að ég byrjaði að syngja fyrir framan Björn Ísak bróður minn, æskuvin hans og vin minn Patrek Sólrúnarson og frænda minn Bjarka Guðmundsson, hafa þeir hvatt mig til þess að taka þátt í svona keppni. Þegar við hittumst hvetja þeir mig alltaf til að syngja. Einn morguninn þegar ég var á leiðinni í salsadanskennslu sendi bróðir minn á mig skilaboð og spurði hvað símanúmerið mitt væri aftur. Ég hélt að hann væri bara kominn með nýjan síma og sendi honum því númerið.“

Eftir kennsluna var hringt í Natan úr númeri sem hann kannaðist ekki við og hélt hann að bróðir hans væri að hringja, þar sem númerið var norskt.

„Ég kannaðist ekki við röddina. Mig grunaði að bróðir minn hefði fengið einhvern félaga sinn til að grínast í mér. Svo sagði hann: „Hæ, þetta er The Voice, er þetta Natan?“ Ég hélt hann hefði sagt „The Vice“ og hugsaði: „Sénsinn að Vice sé að hringja til að búa til heimildaþátt um mig,“ segir Natan hlæjandi, en Vice er veftímarit sem sérhæfir sig í að gera heimildaþætti og -myndir.

Það var snemma ljóst að Natan, hér til hægri, hafði góðan smekk. Mynd/Aðsend

„Ég hélt þarna að þetta væru bróðir minn og vinur hans að rugla í mér og byrjaði bara að rugla í honum til baka. Strákurinn hinum megin á línunni fór eiginlega bara í sjokk og skildi ekki hvað var í gangi. Þegar hann var að fara að slíta samtalinu áttaði ég mig á því að þetta var ekkert grín. The Voice var í alvöru að hringja. Ég talaði við strákinn í smástund og komst að því að bróðir minn hefði skráð mig í keppnina og að mér væri boðið að koma í áheyrnarprufur,“ rifjar Natan upp.

Natan með Christ Medina, en hann heldur upp á tónlistarmanninn sem hafði sögu að segja þegar hann tók þátt í American Idol árið 2011. Mynd/Aðsend

Vill sjá drauma sonarins rætast

Mörgum finnst það merkilegt að Benedikt, faðir Natans, hafi ákveðið að rífa sig upp með rótum og fara út með syni sínum. Þeir hafa verið úti síðan í september.

„Ég hef alltaf sagt Natani að ég styddi hann til góðra verka, þeirra sem styrktu hann og þroskuðu. Í þessu tilfelli er það að láta drauma sína rætast. Sem foreldri tel ég það mína skyldu að gera allt sem í mínu valdi stendur til að fylgja honum dyggilega út í lífið sem ungum manni. Í mínum huga var það engin spurning. Ef þú virkilega vilt þetta þá getur þú treyst á mig þér við hlið. Þannig að það var bara að byrja að pakka,“ segir Benedikt.

Björn Ísak, bróðir Natans, sendi inn myndband af Natani að syngja. Því næst voru 80 keppendur valdir til að koma á svonefnd „Blind auditions“. Í þeim eru fjórir dómarar; Ina Wroldsen, Matoma, Espen Lind og Yosef Wolde-Mariam, en þau eru meðal hæfileikaríkasta tónlistarfólks Noregs. Dómararnir snúa baki í keppendurna. Snúi einn dómari sér við, er viðkomandi kominn áfram í keppninni. Í tilfelli Natans snéru allir fjórir dómararnir sér við.

Það eru æfingar og viðtöl fyrir hverja umferð. Af þessum 80 eru það um það bil 48 sem komast áfram í aðra umferð. Þá er komið að lið sem kallast „Duel“. Þá keppa tveir keppendur úr sama liðinu hvor á móti öðrum. Þeir syngja lag saman og svo velur þjálfarinn annan áfram. Útslátturinn heldur svo áfram þar til sextán eru eftir, sem munu syngja í beinni útsendingu. Þá fá áhorfendur að ráða hverjir komast áfram.

„Ég var mjög stressaður en spenntur á sviðinu. Ég var búinn að æfa mig mjög mikið og var tilbúinn til þess að sýna öllum hvað í mér byggi. Ég labbaði á sviðið þegar allt var tilbúið. Ég varð ekkert meira stressaður fyrir framan allt fólkið og byrjaði að syngja. Það var eins og ég hefði dottið inn í einhverja búbblu af einbeitingu. Ég varð stressaður þegar ég heyrði að ég söng ekki alveg eins og ég ætlaði mér á sumum stöðum, en ég var bara svo hrikalega einbeittur í að gleyma ekki textanum. Þegar ég var búinn með sönginn upplifði ég alveg ólýsanlega tilfinningu og var í hálfgerðu sjokki. Þegar þetta var búið þá mundi ég eiginlega ekkert eftir að hafa flutt lagið og mundi ekki hvað dómararnir sögðu,“ segir Natan.

Þetta rifjaðist allt fyrst upp fyrir honum þegar að hann sá þetta í sjónvarpinu.

„Þetta er tilfinning sem er ekki hægt að kaupa. Ég var algjörlega i skýjunum,“ segir hann.

Söngvarinn segir það ekki endilega drauminn að verða frægur, heldur að fá tækifæri til að semja tónlist sem nær til fólks. Mynd/Benedikt Viggósson

Lét stressið ekki stoppa sig

Komu viðbrögð dómaranna þér á óvart ?

„Já, þetta kom mér allt saman svo mikið á óvart. Ég fór á sviðið með engar væntingar, hélt að enginn myndi snúa sér við. Mig hefur skort sjálfstraust í langan tíma en vonaði innilega að einn dómari myndi snúa sér við þannig að ég kæmist allavega áfram. Það að fjórir dómarar hafi snúið sér við, allir staðið upp fyrir mér klappandi og að fá þessi ummæli frá þeim var alveg óraunverulegt,“ segir Natan.

Hann segist hafa reynt að tileinka sér þá hugsun að hann hefði engu að tapa.

„Ég hugsaði bara að þetta væri eitthvað sem myndi gera mig hamingjusaman og að þetta væri eitt skref í rétta átt að draumunum mínum. Ég hef engu að tapa. Þótt ég dytti út í fyrstu umferð, þá fengi ég að minnsta kost reynsluna. Þannig að ég kýldi bara á þetta. Ég leyfði sjálfum mér að vera stressaður. Stress hefur aldrei drepið neinn, en ég lét það ekki ná tökum á mér. Draumurinn er það mikilvægur. Ég náði að syngja þetta ágætlega en hefði stressið ekki verið til staðar hefði ég náð að syngja þetta aðeins betur. Ég skalf í hægra hnénu og í augnlokunum gegnum lagið og þornaði í munninum. En ég vil þetta svo mikið að ég einbeitti mér bara eins og ég gat og lét það ekki stoppa mig.“

Hann segir það einstaka upplifun að taka þátt í framleiðslu af þessari stærðargráðu.

„Þetta er mikil reynsla sem maður fær og maður kynnist góðu fólki. Þetta er alveg nýtt fyrir mig, að fara í viðtöl og vera í kringum svona stóra uppsetningu. Það er heiður að fá að vera nálægt fólki með einstaka sönghæfileika á borð við Inu, sem er ein af dómurunum,“ segir Natan. Hann valdi Inu sem sinn þjálfara, en hún er ein af þekktustu og bestu söngkonum Noregs. Hún skipar dúettinn Ask Embla með hinum íslenska Arnþóri Birgissyni.

Natan að æfa Muay Thai í Tælandi.

Aldrei jafn spenntur

Viðbrögðin hafa verið einstaklega jákvæð að sögn feðganna.

„Síminn sprakk á föstudaginn síðastliðinn, það var sérstök upplifun. COVID er hér í fullum gangi og þess vegna er ég ekki mikið úti. Ef maður kíkir út, þá er maður með grímu. Ég hef því enn ekki lent í því að einhver kannist við mig,“ segir Natan.

Það stendur ekki á svörum þegar Natan er inntur eftir því með hvaða tónlistarmanni hann myndi helst vilja starfa.

„Minn stærsti draumur er að vinna með Justin Bieber. Ég veit að ég miða hátt, en ég geri það í flestum tilfellum. Svo langar mig líka mikið að vinna með með Lewis Capaldi. Það eru ótalmargir fleiri sem koma til greina, en þetta eru svona þeir helstu. Svo finnst mér alltaf gaman að finna nýja tónlist á netinu,“ segir hann.

Natan á sér, eins og áður hefur komið fram, þann draum heitastan að geta tileinkað líf sitt tónlistinni.

„Það væri frábært ef daglega rútínan væri að syngja í hljóðveri allan daginn, og kynnast fólki í bransanum. Að fá tækifæri til að skrifa lög út frá minni eigin upplifun, tilfinningum og hugsunum. Ég vona innilega að ég geti skapað tónlist, sem kemur beint frá hjartanu og að fólk sem upplifir eða gengur í gegnum svipaða hluti nái að tengja við textann. Þannig að það viti að það stendur ekki eitt. Ég stefni á toppinn og kannski verð ég þekkt nafn í framtíðinni. Ég tek bara eitt skref í einu og býst ekki við neinu, reyni bara mitt besta,“ segir hann.

Benedikt segist einstaklega stoltur af syni sínum, ekki bara frammistöðunni, heldur fyrst og fremst fyrir það hvaða mann Natan Dagur hefur að geyma.

„Jú, ég er mjög stoltur af honum, sérstaklega fyrir að vera falleg og góð manneskja sem vill svo gjarnan gera heiminn að betri stað. Þess vegna samgleðst ég honum sérstaklega í dag, ég veit hvað hann hefur langað þetta lengi en ekki haft styrk og þor fyrr en núna. Ég er stoltur af honum fyrir að sýna þann mikla kjark sem þarf til að vera dæmdur á svona stóru sviði. Það gleður pabba-hjartað meira en ég get komið í orð,“ segir Benedikt.

Ertu spenntur fyrir keppninni?

„Ég er mjög spenntur. Ég hef aldrei verið jafn spenntur í lífinu,“ svarar Natan.

Stefnir þú á sigur?

„Stefna ekki allir á sigur?“ segir Natan Dagur að lokum.

Mynd/Aðsend