Fimmti þáttur Verbúðarinnar skók netheima, rétt eins og þeir sem á undan voru komnir, að lokinni sýningu á RÚV á sunnudagskvöld þar sem áhorfendur létu hrifningu sína óspart í ljós á Facebook og Twitter.
Þar er almennt gerður góður rómur að frammistöðu nánast hvers eins og einasta leikara þannig að í hverjum þætti troðast senuþjófar hver um annan þveran en í síðasta þætti fóru þeir Björgvin Franz Gíslason og Björn Stefánsson, svo til óumdeilt, fremstir meðal jafningja. Björgvin í hlutverki Hemma Gunn og Björn sem Elsa Lund, eitt dáðasta sköpunarverkið í fjölskrúðugu persónugalleríi Ladda.

Björn var þannig í raun að leika Ladda að leika Elsu Lund, eða eitthvað í þá veruna. Hlutverk sem hann stökk inn í svo að segja umhugsunarlaust. „Ég fékk svo lítinn fyrirvara fyrir þetta hlutverk,“ segir Bjössi löngum kenndur við hljómsveitina Mínus. „Ég var í baði og það var hringt í mig, held ég með tveggja daga fyrirvara.“
Bjössi er þó síður en svo óvanur því að bregða sér í gervi þekktra Íslendinga og hefur þannig á síðustu misserum farið gersamlega hamförum á og kostum í Borgarleikhúsinu sem Utangarðs-Bubbi í söngleiknum 9 Líf.

Hann undirbjó sig síðan í snatri og fann sína innri Elsu á YouTube. „Ég horfði á YouTube. Einn þátt og síðan fattaði ég bara að Elsa Lund er í DNA-inu mínu. Ég bara elskaði þennan karakter þegar ég var yngri. Þannig var nú það,“ segir Bjössi um aðdraganda enn eins leiksigursins sem hann sýndi í Verbúðinni á sunnudaginn. ■