Við heimsóttum Önnu Björk Eðvarðsdóttur, matar- og sælkerabloggara og formann Hringsins, og fengum hana til að segja frá sínum uppáhalds haustréttum og sögunni bak við þá. Anna Björk elskar mat og matargerð. Hún heldur úti matarblogginu Anna Björk matarblogg vegna þessa að eigin sögn. Anna Björk er þekkt fyrir að matreiða ljúffenga rétti og sælkeraeftirrétti sem gleðja bæði munn og auga en auk þess leggur hún mikið upp úr fagurfræðinni þegar matur er annars vegar.

„Mér finnst mjög gaman að nota þau hráefni sem eru ferskust hverju sinni. Núna er allt fullt af berjum, sérstaklega bláberjum. Þegar maður er búinn að sulta og frysta slatta til vetrarins. Ég er með stikilsberjarunna í sumarbústaðnum sem gaf af sér átta kíló af berjum í sumar, sú uppskera býður upp á ýmsa spennandi möguleika á næstunni.“

Breytast matarvenjur ykkar eftir árstíðum?

„Já, klárlega. Haustið er uppskerutíminn og tíminn til að undirbúa veturinn. Það er fátt sem veitir jafnmikla gleði og að koma uppskerunni sinni í hús, hvort sem hún er lítil eða stór. Ég sulta, bý til kryddmauk, paté og rúllupylsur. Haustið kallar á hægeldaðan mat, kraftmiklar súpur og soð og dýpra fyllra kryddbragð. Haustið er líka veiðitíminn, þá kemur villibráðin sterk inn.“

Hvað er í uppáhaldi hjá ykkur á haustin?

„Hægeldað lamb, kjötsúpan hennar ömmu, svo eru það réttir eins og osso bucco og frönsk lauksúpa sem eru í miklu uppáhaldi. Uxahalar eru líka að koma sterkir inn hjá mér. Ég hef gaman af því að nota kjötbita sem verða stundum út undan, þeir krefjast oft meiri tíma og pælingar, mér finnst það skemmtileg áskorun. Mér finnst okkur bera skylda til að nota allt sem kemur af dýrinu og vera nýtin. Við eigum að styðja við íslenskan landbúnað og grænmetisræktun, ég er mjög hrifin af „Beint frá býli“, hvort sem það er kjöt eða grænmeti sem ég er að kaupa. Það tengir mann beint við hvað maður er að setja í sig, hvaðan það kemur, hvernig það var alið eða ræktað.“

Einhverjir uppáhaldseftirréttir?

„Bláber eða krækiber með rjóma og sykri eins og í gamla daga, það verður ekki þreytt. Alls konar heitar ávaxtabökur og eplakökur eru samhangandi haustinu í mínum huga.“

Hver er uppáhaldshaustrétturinn?

„Til dæmis bjórsoðnir villigæsaleggir með kartöflumauki, beikoni og bláberjum. Margir fara á gæsaveiðar á haustin og tengdasynir mínir eru allir miklir veiðimenn, sem ég nýt aldeilis góðs af. Þeir senda mér alls konar góðgæti, eins og til dæmis gæsabringur, ferskar og grafnar. Svo er það eftirréttur, en það er bláberja- og hvítsúkkulaðimúspæ. Ég er hrifin af alls konar bökum og pæjum og hvítt súkkulaði er líka í uppáhaldi hjá mér. Ég tíndi bláber eins og flestir í haust, svo það lá beint við að para þessi eðalhráefni saman í fallegt pæ.“

Bjórsoðnir villigæsaleggir. Glæsilegur réttur.

Bjórsoðnir villigæsaleggir

Fyrir 4

4-6 villigæsaleggir

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Hveiti til að velta leggjunum upp úr

1 msk. olía til að steikja upp úr

3 laukar, skrældir og skornir í sneiðar

4 sneiðar beikon, skorið í bita

4 hvítlauksrif

1 tsk. timían

3 bollar af uppáhaldsbjórnum þínum (má nota kjúklingasoð)

250 g íslensk aðalbláber

Kartöflumauk

500 g rauðar nýjar kartöflur

1-2 msk. smjör

Parmesanostur, rifinn

Rifin múskathneta

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Leggirnir eru snyrtir, saltaðir og pipraðir og síðan er þeim velt upp úr hveitinu, en umfram hveitið er hrist af þeim. Olían er hituð í djúpri pönnu með loki, sem er passleg fyrir leggina. Beikonið er brúnað á pönnunni og þegar það er tilbúið er það tekið upp úr og sett til hliðar og geymt. Leggirnir eru brúnaðir í feitinni á pönnunni, síðan eru þeir teknir upp úr og laukurinn steiktur í feitinni, þar til hann er glær og meyr, í um það bil fjórar mínútur. Leggjunum, hvítlauk, timían og bjór/soði (nóg til að fljóta vel yfir leggina) er bætt út í. Lokið er sett á pönnuna og soðið rólega í 35-40 mínútur, þar til leggirnir eru gegnsoðnir og meyrir (gætu þurft lengri tíma ef þeir eru stórir). Teknir upp úr og haldið heitum á meðan sósan er soðin niður.

Kartöflurnar eru soðnar í 10 til 15 mínútur, eftir stærð. Þær eru skrældar og maukaðar með töfrasprota, ásamt smjörinu og parmesanosti. Kryddað til með múskathnetu, salti og pipar. Borin fram með leggjunum, beikoni, bláberjum, maukuðum kartöflum og nokkrum skeiðum af soði og lauk.

Bláberja-hvítsúkkulaðipæ að hætti Önnu.

Bláberja-hvítsúkkulaðipæ að hætti Önnu Bjarkar

Fyrir 8-10

Botn

30 stk. vanillukremkex, möluð mjög fínt í matvinnsluvél

5 msk. smjör, brætt

22 cm lausbotna form er gert klárt með því að klæða það að innan með plastfilmu og sníða síðan bökunarpappír í botninn á því. Vanillukexið er sett í matvinnsluvél og malað fínt og smjörið brætt í potti. Allt sett í stóra skál og blandað vel saman. Mylsnunni er síðan hellt í formið og þjappað út í enda á því, jafnað út með glasi með flötum botni, kælt.

Bláberja/hvítsúkkulaðimús

1½ bolli bláber, fersk eða frosin, aðeins meira til að skreyta með

2 msk. sítrónusafi (aðeins minna ef sítrónan er mjög súr)

2 tsk. fínrifinn sítrónubörkur

5 blöð matarlím

350 g hvítt súkkulaði

3 bollar rjómi, þeyttur

¼ bolli flórsykur

Bláberin eru sett í matvinnsluvél og maukuð og sítrónusafa og berki blandað út í. Matarlímið er sett í skál með köldu vatni svo það fljóti vel yfir blöðin svo þau mýkjast vel. Blöðin eru síðan tekin upp úr vatninu, látið leka vel af þeim. Þau eru brædd yfir vatnsbaði þar til matarlímið er fljótandi. Bláberjamaukinu er hellt yfir matarlímið og blandað mjög vel saman. Súkkulaðið er brotið í mola og sett í stóra skál. Suðan er látin koma upp í 1 bolla af rjóma, sem er hellt yfir súkkulaðið og hrært í þar til súkkulaðið er að mestu bráðið og svo blandað saman við berjamaukið, hrært í þar til súkkulaðið er alveg bráðið. Skálinni stungið í ísskáp í 30 mínútur. Restin af rjómanum er þeytt með flórsykrinum, þar til hann er stífþeyttur. 1/2 bolla er blandað varlega saman við berja/súkkulaðiblönduna, síðan er restinni blandað varlega saman við og hellt yfir botninn. Forminu er stungið í kæli og látið standa óvarið í klukkustund. Þá er plastfilma sett yfir og kælt í allavega 5 tíma eða í 2-3 daga.

Til skrauts

½ bolli íslensk aðalbláber

1 msk. sítrónusafi

¼ bolli sykur

Þegar þú ert tilbúin að bera pæið á borð, er gott að vera búin að setja smávegis af bláberjum í litla skál og velta þeim upp úr sítrónusafanum og síðan upp úr sykrinum. Það er ágætt að leyfa berjunum aðeins að þorna svo sykurinn verði stökkur. Pæið er tekið varlega úr forminu, plastið og pappírinn tekinn í burtu, sett á disk. Ef þér finnst kanturinn á pæinu „hrukkóttur“ eftir plastið, er gott að setja hníf með breiðu blaði undir heita vatnsbunu, í smátíma til að hita blaðið, þerra það og draga það síðan eftir kantinum, þá bráðnar músin. Skreytt með sykruðu bláberjum og fínrifnu hvítu súkkulaði.