Björn Gunnar Rafns­son, sem dvelur í Afríku­ríkinu Sam­bíu um þessar mundir, skellti sér út í búð í höfuð­borginni Lusaka í dag. Þegar Björn rölti um kín­verska verslun rak hann augun í kunnug­leg merki á húfum sem voru til sölu.

Eins og með­fylgjandi mynd ber með sér voru þetta húfur merktar ís­lensku í­þrótta­fé­lögunum KA á Akur­eyri og Sindra á Horna­firði. Þó að KA og Sindri séu öflug og vafa­lítið vel rekin í­þrótta­fé­lög verður að teljast ó­lík­legt að vin­sældir þeirra séu það miklar í Sam­bíu að stór markaður sé fyrir vörur með merkjum þeirra.

Björn Gunnar birti myndirnar á Face­book-síðu sinni í dag og sagði meðal annars: „Það væri nú gaman ef ein­hver þekkti söguna á bak­við hvers vegna þær enduðu hér í Afríku.“

Rauði krossinn hér á landi hefur lengi safnað fatnaði sem ekki er lengur í notkun og sent til Afríku. Þykir ekki ó­lík­legt að húfurnar hafi komið til landsins í ein­hverjum slíkum fata­gámi á síðustu árum.

Að­spurður hvort hann hafi keypt húfurnar segir Björn að þær bíði ein­hvers heima­mannsins. „Ég er enn að bíða eftir að finna KR húfu, þá splæsi ég í eina,“ segir hann og bætir við að þessar tvær húfur hafi verið þær einu með ís­lenskri tengingu sem hann sá.

Frétta­blaðinu lá for­vitni á að vita hvað Björn væri að gera í Sam­bíu. Að­spurður segist hann hafa farið þangað til að elta konu sem hann kynntist á netinu. Hann hefur dvalið í landinu í tvo mánuði og kveðst kunna afar vel við sig. Hann kemur heim um miðjan maí en fer svo aftur út og á­ætlar að vera í Afríku í tvö ár.

Kórónu­veiran hefur látið víða nokkuð mikið að sér kveða en staða mála virðist vera nokkuð góð í Sam­bíu ef marka má Björn. „Hún er mjög góð, til­tölu­lega lág tíðni og fólk er lítið að stressa sig á þessu hérna.“