Paradísarheimt 60/40 er sýning í anddyri Landsbókasafnsins, haldin í tilefni þess að 60 ár eru liðin frá útkomu skáldsögu Halldórs Laxness og 40 ár frá frumsýningu sjónvarpsmyndar sem gerð var eftir bókinni. Á sýningunni eru gögn sem Björn G. Björnsson leikmyndateiknari, sem gerði leikmynd sjónvarpsmyndarinnar, hélt til haga við tilurð og töku hennar og afhenti Leikminjasafni Íslands sem nú er hluti af Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Jafnframt eru á sýningunni handrit Halldórs Laxness að bókinni og sjá má myndskeið úr sjónvarpsmyndinni.

„Á sýningunni eru teikningar, ljósmyndir og úrklippur, kort af stöðum og myndir af gömlum húsum, sem sagt alls konar gögn sem tengjast þessu stóra verkefni sem var unnið hér heima og í Utah og Þýskalandi. Ég er maður sem geymir allt og þegar vinnan var búin var ég með þrjá fulla pappakassa,“ segir Björn.

Árið 1980, sama ár og myndin var sýnd, bjó Björn til litla sýningu um gerð hennar á fimmtán spjöldum sem hann hengdi upp í Torfunni veitingahúsi í Lækjargötu. „Ég geymdi þessi spjöld þannig að uppistaðan í sýningunni í Landsbókasafninu er þessi sýning frá 1980 sem var alltaf að þvælast fyrir mér í geymslunni heima. Svo eru þarna nokkur stór sýningarborð full af öðrum gögnum, mest ljósmyndum.“

Frá sýningunni í Landsbókasafninu.

Ómar fann fjallshlíð

Þýski leikstjórinn Rolf Hädrich leikstýrði Paradísarheimt en sjö árum áður hafði hann gert kvikmynd eftir Brekkukotsannál en Björn gerði einnig leikmyndina við þá mynd. Spurður hvernig hafi verið að taka þátt í gerð Paradísarheimtar segir Björn: „Það var alveg óskaplega skemmtilegt. Það voru tvær aðalleikmyndir, annars vegar bær Steinars bónda og heil gata í þorpi í Utah.

Við veltum því fyrir okkur hvar bærinn ætti að standa. Það endaði með því að ég spurði Ómar Ragnarsson hvar væri fjallshlíð þar sem grjótið væri að hrapa niður og sneri á móti suðri. Ómar sagði: Það er á Hvalnesi í Lóni. Ómar kann landið algjörlega utanbókar. Bærinn var byggður á verkstæði í bænum og var svo tekinn í sundur, fluttur austur og reistur þar. Hluti af honum stendur enn þá, ósköp laslegur.

Tugir tökustaða

Stærsta leikmyndin var heil gata í Utah, aðalgatan í Spánskum Forki. Við fórum í tvo leiðangra til Bandaríkjanna til að finna lítið þorp en komumst að því að nútíminn er alls staðar. Þannig að það var ákveðið að byggja heila götumynd. Við völdum stað á stórri sléttu þar sem sást ekki í þjóðveg, hús eða nútíma og réðum frábæran mann til að byggja götuna og útvega allt sem þurfti í hana. Svo var ég hér heima að teikna gamla bæinn og húsin í Utah og senda í pósti þangað til ég fór vestur þar sem við vorum í fimm vikur að gera allt klárt. Svo kom tökuliðið og leikararnir.

Þetta var mikið ævintýri, það tók næstum því ár að gera þetta. Samanlagt voru þetta tugir tökustaða og leikmynda sem þurfti að byggja og ganga frá. Þetta var ákaflega skemmtilegt og fróðlegt.“

Götumyndin í Utah sem byggð var. Mynd/Aðsend