„Björn Bjarnason svarar Morgunblaðsgrein minni í gær á bloggsíðu sinni í dag. Af þessu tilefni opnaði ég bloggsíðu hjá Mogganum þar sem ég birti andsvar sem ég læt fylgja hér að neðan,“ skrifaði Ólafur á Facebook þegar hann fylgdi nýrri bloggsíðu sinni, olafurisl.blog.is, úr hlaði á miðvikudaginn.

„Ég þurfti að bregðast við bloggi Björns og þetta form sýndist hentugt í því skyni,“ segir Ólafur og bætir aðspurður við að viðbrögðin við þessu útspili hans hafi verið með ágætum.

Fyrsta, og enn sem komið er eina bloggfærsla Ólafs ber yfirskriftina Viðbrögð við svari Björns Bjarnasonar vegna þriðja orkupakkans. Þótt athugasemd Björns á síðu sinni hafi farið fyrir brjóstið á Ólafi tekur hann þó fram, áður en hann svarar Birni fullumhálsi, að á Björn.is „ber margt gott fyrir augu.“

Ólafur hefur sjálfsagt ekki sagt sitt síðasta á þessum nýja vettvangi enda með ýmis mál sem hann vilji gjarnan fjalla um. „Og trúi að þetta stutta og frjálslega form sem bloggið er nýtist vel fyrir sumt af því. Lengra mál er gott að fá birt í Mogganum.“

Frumherji fagnar nýliðun

„Já, það er fagnaðarefni að þriðji orkupakkinn og umræður um hann urðu til þess að Ólafur Ísleifsson bættist í hóp okkara bloggaranna,“ svarar Björn þegar hann er spurður hvort ábyrgð hans megi ekki teljast mikil með því að hafa ýtt Ólafi út á bloggvöllinn.

„Að blogg á bjorn.is skuli hafa kveikt áhuga hans á þessari samskiptaleið er þeim mun ánægjulegra vegna þess að einmitt nú um mánaðamótin janúar/febrúar 2023 eru 28 ár frá því að bjorn.is fór í loftið,“ heldur Björn áfram en eins og árafjöldinn ber með sér var hann meðal þeirra fyrstu sem byrjuðu að blogga af alvöru hér á landi.

„Innkoma Ólafs er til marks um að áhrif síðunnar halda og eru enn mikil og vaxandi.“