Tónlistarkonan ástsæla Björk Guðmundsdóttir hefur tjáð sig um ástæðurnar fyrir því að hún flutti frá Bandaríkjunum aftur til Íslands.

Í viðtali við Pitchfork, þar sem hún ræddi væntanlega plötu sína Fossora, sagði Björk að Covid 19 hafi haft áhrif á ákvörðun sína, sem og all ofbeldið sem viðgengst í Bandaríkjunum.

„Ofbeldið í Bandaríkjunum er á skala sem ég hreinlega næ ekki utan um,“ er haft eftir Björk. „Ég á dóttur sem er hálf-amerísk í skóla sem er fjörutíu mínútna fjarlægð frá Sandy Hook,“ segir hún og vísar þar með í skólann þar sem mannskæðasta skólaskotárás í sögu Bandaríkjanna átti sér stað.

„Þegar við erum hér upplifum við allt Ísland. Ef ein manneskja er myrt fyrir norðan, þá erum við öll í sárum. Þetta er eyjahugarfar. Í Bandaríkjunum, þá er erfitt fyrir mig sem manneskju frá eyju að upplifa allt þetta ofbeldi.“ segir Björk jafnframt.

Þetta er í annað skipti á stuttum tíma sem Björk tjáir sig um ofbeldi í fjölmiðlum, en í viðtali á X977 á dögunum biðlaði hún til íslensks kvikmyndagerðarfólks að draga úr ofbeldi í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, þar sem það endurspeglaði ekki íslenskan raunveruleika.

„Ég vil biðja íslenska listamenn sem gera sjónvarpsþætti og bíómyndir að hætta að vera með svona mörg morð. Þetta er ekki grín. Það er ekki okkar raunveruleiki að það séu fimm morð á viku í sjávarþorpi fyrir norðan. Síðan er horft á þetta og síðustu vikur hafa byrjað hnífabardagar niðri í bæ,“ sagði Björk.