Tónlistarkonan Björk mun halda þrjá tónleika undir nafninu Cornucopia í Laugardalshöll í Reykjavík dagana sjöunda, tíunda og þrettánda júní.
Flutt verður tónlist af plötunum Útópía og Fossora og að sögn fyrirtækisins Senu sem stendur fyrir skipulagningu tónleikanna verður engu til sparað á þessum stærstu tónleikum sem Björk hefur haldið hér á landi.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að Laugardalshöllinni verði gerbreytt í tilefni tónleikanna og standi til að „bjóða gestum í stórfenglegt landslag sem samanstendur af gróskumiklum litum, framtíðarkenndum sýndarveruleika og draumakenndri áferð náttúrunnar.“
Gert er ráð fyrir að hver sýning verði um tvær klukkustundir að lengd og mun Hamrahlíðarkórinn koma fram sem sérstakur gestur.

Verður mikið sjónarspil
Að sögn Björk verður sýningin „talrænt leikhús“ (digital theater) þar sem áheyrendur eru umkringdir tugi talrænna skjáa með hljóðfæraleikara, kór, flautur, klarinett, slagverk og ótal mörgum sérsmíðuðum hljóðfærum.
„Cornucopia var alltaf hugsuð sem veröld fyrir bæði Útópíu og plötuna eftir hana…sem er nú komin út og heitir Fossora. ég er því mjög spennt að frumsýna í sumar á íslandi, og sjá þessa tvo heima sameinast,“ segir Björk í tilkynningu sinni.
Afar takmarkað magn miða verður í boði á hverja tónleika og verður fyrirkomulag miðasölu kynnt innan skamms.