Tónlistar- og bæjarhátíðin Hjarta Hafnarfjarðar sem fram fer í næstu viku er nú haldin í þriðja skiptið. Hátíðin er metnaðarfullt framtak þeirra Páls Eyjólfssonar og Péturs Stephensen sem hafa rekið menningarhúsið Bæjarbíó við Strandgötu undanfarin ár. Fjölbreytt tónlistardagskrá verður bæði innanhúss og utan.

Það er tónlistarsérfræðingurinn Jónatan Garðarsson sem setur hátíðina með hátíðarræðu um Björgvin Halldórsson. Þá verður stjarna Björgvins afhjúpuð á gangstétt fyrir utan Bæjarbíó. Jónatan segir að það sé ekki nokkur vafi á því að Björgvin sé einn fremsti söngvari landsins, fæddur og uppalinn í Hafnarfirði og hefur staðið vaktina lengi.

Eitt besta tónleikahúsið

„Þegar þeir félagarnir Pétur og Páll tóku við Bæjarbíói fóru þeir að skipuleggja undirbúning hússins fyrir tónleika. Settu meðal annars upp nýtt hljóðkerfi sem hentar til tónleikahalds enda hafði þetta verið bíósalur áður sem Kvikmyndasafn Íslands hafði haft til umráða og reyndist vel fyrir sýningar. Að mínu mati er Bæjarbíó eitt besta hljómleikahús á landinu. Mjög góður hljómur er í húsinu eins og var í Gamla bíói á meðan gömlu sætin voru þar. Þessi tvö hús eru alveg einstök á landinu hvað hljómgæði varðar,“ segir Jónatan. „Ég man eftir því að þegar Þursaflokkurinn spilaði í Bæjarbíói árið 1982 var það tekið fram að þeir hefðu hvergi spilað í eins frábæru hljómleikahúsi. Karl Sighvatsson og Egill Ólafsson tóku það sérstaklega fram hversu ánægðir þeir hefðu verið með sándið. Það var því virkilega ánægjulegt að fá þetta hús undir tónleikahald,“ bætir Jónatan við.

Bar og Mathiesenstofa

Jónatan bendir á öflugt tónleikahald í húsinu undanfarin þrjú ár. Mörg merkileg bönd hafa fundið þarna stað til að koma saman aftur. „Tónlistarhátíðin Hjarta Hafnarfjarðar fór af stað fyrir tveimur árum og hefur vaxið og dafnað síðan. Hátíðin hefur verið mjög vel heppnuð og er orðin ein stærsta slík tónlistarhátíð sem bæjarfélag stendur að en hún er styrkt af Hafnarfjarðarbæ. Hátíðin lyftir bæjarfélaginu upp og það lifnar yfir mannlífinu. Fjölmargt tónlistarfólk býr í Hafnarfirði, rekur ættir sínar þangað eða hefur einhver tengsl við bæinn. Það eru þó ekki bara Hafnfirðingar sem koma fram heldur listafólk alls staðar að af landinu. Til gamans má geta þess að að Pétur Stephensen (helmingurinn af Pétri og Páli) var bassaleikari í Bendix á sínum tíma, þegar Björgvin mætti á æfingu hjá þeim og stóð sig svo vel í söngvarahlutverkinu að hann var ráðinn í hljómsveitina. Söngvaranum sem var þar fyrir gert að hætta,“ segir Jónatan.

„Fyrir nokkrum mánuðum var tekinn í notkun hliðarsalur. Þar var verslun Jóns Mathiesen í gamla daga og nefnist salurinn Mathiesenstofa. Þar er horn tileinkað Björgvini Halldórssyni en myndir frá ferli hans skreyta Gullvegginn. Í Mathiesenstofu er bar og setustofa, þótt Jón Mathiesen hafi sjálfur verið stakur stúkumaður.“

Jónatan segir að popptónlistarmaður hafi aldrei verið heiðraður með þessu móti fyrr í Hafnarfirði en ákveðið hefur verið að halda þessu áfram. „Bæjarlistamenn hafa verið valdir en aldrei neitt þessu líkt. Gangstéttin fyrir fram bíóið mun því fá fleiri stjörnur og verður svona Walk of Fame eins og í Hollywood. Fyrsta stjarnan verður afhjúpuð á mánudaginn kl. 19 og er athöfnin opin öllum. Það verður því dúndrandi fjör í Hafnarfirði alla næstu viku,“ segir Jónatan og bætir við að Björgvin sé enn Poppstjarna Íslands þar sem poppstjarna hafi aðeins verið kosin einu sinni þegar hann var 18 ára. „Þann 4. september eru 50 ár síðan sú kosning fór fram. Björgvin er fæddur töffari og verður það alltaf.“

Björgvin Halldórsson og Ragnhildur Gísladóttir hafa lengi sungið saman.
Björgvin Halldórsson árið 1977.
Björgvin er hin eina sanna poppstjarna Íslands. Í september verða 50 ár frá popphátinni í Laugardalshöllinni.