Lady Brewery hélt tryllt partí að kvöldi hlaupársdags á laugardaginn í samstarfi við hótelið Hlemm Square þar sem fjöldi hönnuða, tónlistarmanna og listaspíra lyfti glösum. Tilefnið var útgáfuhóf bjórsins Er þetta hönnun? sem er bruggaður í tilefni af HönnunarMars 2020.

Slegið var upp glæsilegri veislu þar sem boðið var upp á nýja bjórinn og plötusnúðarnir í Oh Holy Smokes héldu uppi stuðinu.

Lady Brewery er fyrsta brugghúsið á Íslandi í eigu kvenna. Var það stofnað árið 2017 og ber þekktasti bjórinn þeirra nafnið First Lady.

Er þetta hönnun? er IPA-bjór en miðinn utan á honum, hannaður af Baldri Björnssyni, er afar sérstakur þar sem hann er með hitabreytilegu bleki og liturinn kemur í ljós þegar bjórinn er kaldur en hverfur með líkamshita þess sem heldur á honum.

Í ræðu sinni þakkaði Þórey Björk Halldórsdóttir Klaus Ortlieb, eiganda Hlemms Square, sérstaklega fyrir að hafa hvatt Lady Brewery áfram þegar þær voru að stíga sín fyrstu skref, sagði þeim að fá sér kennitölu og var sá fyrsti til að selja bjórinn þeirra á krana.

Á miðnætti steig svo rapparinn Countess Malaise á svið og hélt áhorfendum föngnum með frábærum flutningi og sviðsframkomu.

Countess Malaise er sviðsnafn tónlistarkonunnar Dýrfinnu Benitu Basalan en hún var nýlega tilnefnd nýlega til Norrænu tónlistarverðlaunanna fyrir plötuna Hysteria sem kom út 2019. Platan var einnig tilnefnd til Kraumsverðlaunanna.

Ólöf Rut og Helga Páley voru plötusnúðar kvöldsins.
Gauja Hlín, Klaus Ortlieb, eigandi Hlemms Square, Anna Margrét Björnsson og Jón Stefánsson létu sig að sjálfsögðu ekki vanta á viðburðinn. Myndir/Laimonas dom Baranauskas
Vinkonurnar og nöfnurnar Sigríður Thorlacius og Sigríður Ásgeirsdóttir.
Þórey Björk Halldórsdóttir, eigandi Lady Brewery, kyssir eiginmann sinn, Baldur Björnsson.
Halldór Viðar Hjaltested, veitingastjóri staðarins, ásamt Gauju Hlín, rekstrarstjóra.
Eva, Rakel, Brynhildur og Þórey voru glaðar að upplifa þennan hlaupársdag.
Countess Malaise var tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna.