Björk Guðmundsdóttir söngkona hefur sett íbúð sína í Brooklyn í New York á sölu. Um er að ræða þakíbúð sem metin er á um níu milljónir dollara eða tæpan milljarð íslenskra króna. 

Þetta kemur fram á vef Variety en RÚV greindi fyrst frá. 

Íbúðin er 278 fermetrar að stærð en Björk keypti hana með fyrrum eiginmanni sínum, Matthew Barney, árið 2009 á fjórar milljónir dollara, eða tæplega hálfan milljarð íslenskra króna.

Þá greinir Variety frá því að að íbúðinni sé skipt í „dags- og nætursvæði“ og að frá henni sé útsýni yfir nánast alla Brooklyn og Manhattan. Í íbúðinni eru fjögur svefnherbergi og fjögur baðherbergi, en myndir úr henni má sjá hér fyrir neðan, og hjá Variety.