„Við bjóðum ykkur í ferða­lag. Göngum um mið­bæ Reykja­víkur þar sem sí­fellt fleiri eru á ferð. Við förum í leik­hús og sund á tímum heims­far­aldurs. Gerum okkur grein fyrir for­réttindum þess að vera á flakki.“

Þetta kemur fram í til­kynningu frá leir­kera­smiðunum Antoníu Berg og Írisi Maríu Leifs­dóttur vegna lista­sýningarinnar AUGNA­BLIKIN sem munu opna í dag í Tjarnar­bíói og í Vestur­bæjar­laug. Þar tvinna þær saman leir og málningu „og gera til­raun til að fanga augna­blikin sem eru svo fljót að gleymast.“

Saman opna þær tvær mynd­listar­sýningar í dag á vegum gallerí FLÆÐI. Lista­sýningin, Í faðmi skuggans, verður í Tjarnar­bíó frá 17 til 19. Í fram­haldi verður gengið með verk að Vestur­bæjar­laug, þar opnar sýningin, Hugar­ró, kl. 20:30. Í lauginni verða verk til sýnis bæði innan­dyra og úti hjá heitu pottunum.

Í til­kynningu þeirra kemur fram að sýningarnar muni standa yfir í mánuð. Þær varpa fram kenningar innan sál­greiningar eftir C. G, Jung um að í hverri mannskju búi skuggi, eða tví­fari sem við verðum að takast á við til að þroskast.

„Skugginn er birtingar­mynd and­hverfu þinnar. Skugga­myndin brýst út á öfga­fullum tímum heims­far­aldurs. Við þráum hugar­ró og sálin reynir að finna jafn­vægi á erfiðum tímum. Í ein­verunni lítum við inn á við og tökumst á við skuggann okkar. Það er leið til að upp­fylla sjálfið. Lykil­at­riði í sál­fræði Jung er að finna jafn­vægið á milli per­sónunnar og skuggans,“ segja þær stöllur.

„Vana­legt verður ó­vana­legt. Ó­vana­legt verður varan­legt. Tíma­bil veirunnar tekur á, en veitir einnig tæki­færi til að taka nýja stefnu og að­lagast. Þegar allt fer á hvolf er merkingar­bært að skoða nánar litlu hlutina í nær­um­hverfinu sem vekja upp til­finningar.“

Hryllingur í fjöldanum heitir þessi mynd eftir þær stöllur.
Mynd/Aðsend

Af­mælis­sýning síðar í mars

Síðar í mars verður haldin af­mælis­sýning Augna­blika í Kola­portinu. Þar verða að­eins hringir til sýnis sem eru endur­tekið form innan form­leysunnar.

Upp­spretta Augna­blika varð til þegar vinnu­að­staða þeirra lokaði vegna sam­komu­banns og þær gátu hvorki nálgast olíu­málningu né leirofn. Þær leituðust að mögu­leikum til að halda á­fram vinnu sinni með því að horfa í kringum sig og nýta það sem er í nær­um­hverfinu.

Það má snerta lista­verkin og á­horf­endur eru hvattir til að koma ná­lægt verkunum sem eru til sýnis.

Í FAÐMI SKUGGANS

Tjarnarbíó

Opnun | 04.03.21 | 17:00 - 19:00

Sýningin stendur í mánuð

EFNISYFIRLIT

OLÍA, AKRÍLL, VATNSLITIR, VATN GIPS, ÞÝSKUR LEIR , REYNISFJÖRU SANDUR, MÝRARRAUÐA FRÁ ÖLKELDU.

HUGARRÓ

Vesturbæjarlaug

Opnun | 04.03.21 | 20:30 - 22:00

OLÍA, AKRÍLL, VATNSLITIR, VATN GIPS, ÞÝSKUR LEIR , REYNISFJÖRU SANDUR, MÝRARRAUÐA FRÁ ÖLKELDU, MOSI.

Hugarró, eftir þær stöllur.
Mynd/Aðsend