Innsetningin Segðu mér sögu eftir Svandísi Dóru Einarsdóttur, Tönju Levý og Jökul Jónsson verður opnuð í Borgarbókasafninu Grófinni í dag kl. 14. Um er að ræða risastórt rúm þar sem fólk getur lagst upp í, breitt yfir sig risasæng, hjúfrað sig í risakodda og valið sér barnabók til að hlusta á eða lesa.

„Þannig viljum við að fullorðnir geti að nýju upplifað sig sem barn í öruggi stóra rúmsins, látið lesa fyrir sig og leitað í hlýjar minningar æskunnar. Fundið fyrir öryggi, hlýju og yndi þess að láta lesa fyrir sig sögur og ljóð,“ segir í tilkynningu.

Tilgangur Segðu mér sögu er að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi barnabókmennta og hvetja til þess að fólk gefi sér og börnum sínum mikilvægan tíma með því að lesa fyrir þau og hvetja þau til að lesa sjálf.