Tómas Hilmar Ragnarz og Bergleif Joensen, eigendur veitingastaðarins Orange Café EspressoBar í Ármúla, bjóða þeim sem hafa lítið milli handanna og kvíða einmanalegum jólum í hátíðarkvöldverð á veitingastaðnum á aðfangadagskvöld

„Það er fullt af fólki sem er eitt um jólin og getur þar fyrir utan jafnvel ekki látið mikið eftir sér. Við Beggi höfum báðir upplifað það að vera einir á jólunum og þess vegna ákváðum við bjóða einstæðingum í alvöru jólagleði með þriggja rétta hátíðarkvöldverði og jólagjöfum,“ segir Tómas í samtali við Fréttablaðið.

„Við gerum þetta í hinum eina sanna jólaanda sem gengur út á að láta gott af sér leiða og gleðja aðra. Það er bara þannig. Við hugsum þetta fyrir þá sem geta ekki verið með sínum nánustu á jólunum og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.“

Tómas segir aðfangadagskvöld geta verið eitt einmanalegasta kvöld ársins fyrir þá sem eiga í fá eða engin hús að venda og þá félagana langi til þess að auðvelda þeim að njóta jólanna í huggulegu umhverfi og notalegri stemningu.

„Þetta á að vera falleg hátíðarstund. Kassinn verður lokaður og það verður ekkert selt og auðvitað verður ekkert áfengi í boði hjá okkur á aðfangadag, enda eiga jólin og áfengi enga samleið. Þetta er bara gert til þess að hafa næs stemningu.“

Bergleif er aðalkokkurinn á staðnum og hann mun elda ofan í mannskapinn ásamt Viktori, syni sínum og kokkanema. „Beggi er frábær kokkur og gerir geggjaðan mat hérna alla daga þannig að þeir feðgar fara létt með að töfra jólasteikina fram á aðfangadag,“ segir Tómas.

Eins og fyrr segir eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir en þeir feðgar taka á móti borðapöntunum í símum 771 9877 (Bergleif) og 662 3306 (Viktor). Húsið opnar klukkan 17 á aðfangadag og borðhald hefst klukkan 18.