Gestir á sýningum og viðburðum voru glæsilegir að vanda. Það vakti þó athygli að bjartir litir voru einstaklega áberandi, og þá stóðu neonlitirnir algerlega upp úr og stálu senunni. Oftast boða ljósir litir, pastellitir og blómamynstur vorið og sumarið, en ekki í ár. Sumarið í ár hefur verið sumar neonlitanna.

Bjartsýni tískuheimsins

Þetta undarlega litaval kemur tískugúrúum þó ekki mikið á óvart enda flæddu neonlitirnir yfir tískupallana fyrir vor og sumar 2022. Fendi, Rodarte, Jason Wu, Sergio Hudson, Proenza Schouler, Prada, Prabal Gurung, Valentino og fleiri nýttu sér kraft neonlitanna til að bæta mjög þarfri bjartsýni í tískubransann.

Þessi gestur á tískusýningu Ganni parar saman neongrænan köflóttan kjól og neonappelsínugult veski sem kemur skemmtilega út.

Aftur og aftur neon

Neonlitir voru, eins og mörg muna eftir, eitt aðaltískutrendið á níunda áratugnum með þröngum eróbikksamfestingum, leggings, svitaböndum og túperuðu hári. Neon kom líka aftur í byrjun tíunda áratugarins þegar Michael Jackson kvikmyndin Thriller kom út.

En af hverju neon? Hvers vegna koma neonlitirnir aftur og aftur í tísku? Neonlitir, ólíkt öðrum sterkum og björtum litum, hafa þá eiginleika að bókstaflega ljóma. Það þarf ekki að reyna mikið til þess að vekja athygli með neon. Það er hægt að nota svo lítið sem eina neonlitaða spennu, neonlitaða sokka eða eyrnalokka, og þú nærð strax að fanga athyglina.

Það er líka mjög smart að nota neonliti sem tól til að poppa upp annars einlitar flíkur eins og sést hjá þessum gesti sem var með puttann á neonpúlsinum á tískuvikunni í Kaupmannahöfn. Fréttablaðið/Getty

Það er síður en svo of seint að leika sér aðeins með neonlitina enda má lauma þeim inn á meðal annarra lágstemmdari lita, sýna smá leikgleði og leyfa þeim að poppa þá aðeins upp.