Það er svolítið fyndið og mjög merkilegt að hitta alla þessa aðdáendur sem vita að því er virðist allt um mann,“ segir Ari Ólafsson sem mun stíga á svið í kvöld á stóra sviðinu í Lissabon þegar fyrri undanúrslitariðillinn fer fram.

Ari er annar á svið í Altice-höllinni í Lissabon í Portúgal en hann segist hafa notið hverrar stundar í þessu Eurovision-ferðalagi sínu. Eitt sem hafi komið honum á óvart er hversu stór Eurovision-heimurinn, sé. „Hann er miklu stærri en ég átti von á. Þetta er svolítið djúp laug sem ég stakk mér út í og ótrúlega mikið af aðdáendum en góðu fólki í kringum þetta batterí.

Ég hef alltaf sagt að þetta væri stærsti atburður utan íþróttanna sem er sýndur um heiminn og nú eru Bandaríkin og Asía búin að bætast við svo þessi heimur fer stækkandi.“

Sjá einnig: Hlustaðu á lögin sem etja kappi við Ara

Ari naut sín á bláa dreglinum þar sem brosið hans bræddi fjölmörg hjörtu, bæði blaðamanna og aðdáenda. „Það var mjög gaman að labba eftir dreglinum. Það var skemmtileg stund að hitta allt þetta fólk og spjalla. Það var líka gott veður og maður naut sólarinnar,“ segir hann.

Ari viðurkennir að Eurovision hafi opnað fjölmargar dyr sem geti hjálpað honum í framtíðinni. „Ég get ekki alveg farið út í það. En það hafa komið upp tækifæri sem munu vonandi hjálpa mér í framtíðinni,“ segir Ari sem er bjartsýnn fyrir kvöldið. „Áfram Ísland,“ segir hann og hlær.

Þjóðin klofin

Í könnun MMR kom fram að rúmur meirihluti þjóðarinnar telur að Our Choice komist ekki áfram úr undanúrslitunum. Um 49 pró- sent töldu að lagið myndi komast á úrslitakvöldið á laugardaginn. Tíu prósent svarenda sögðust vongóð um að lagið myndi hreppa eitt af tíu efstu sætum keppninnar en 34 prósent sögðu að lagið myndi enda í einhverju af átta neðstu sætunum.

Í tilkynningu frá MMR segir að konur hafi verið jákvæðari en karlar við spurningunni um hvort lagið kæmist áfram úr undanúrslitunum, eða 54 prósent á móti 45. Þá voru karlar einnig líklegri til að telja að lagið myndi enda í 36. til 43. sæti. Þar að auki var elsti aldurshópurinn, 68 ára og eldri, hvað jákvæðastur fyrir velgengni. 81 prósent þeirra taldi að lagið myndi komast áfram.