Guðrún Lára Magnúsdóttir, forseti Soroptimistasambands Íslands, segir að það sé markmið soroptimista að vinna að bættri stöðu kvenna, gera háar kröfur til siðgæðis, vinna að mannréttindum öllum til handa, vinna að jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi. „Við viljum vekja athygli á raunverulegum aðstæðum sem konur, börn og fólk almennt býr við í ofbeldissamböndum. Tölur þar um staðfesta að sjö tilkynningar um heimilisofbeldi eða ágreining bárust lögreglunni á degi hverjum, eða 205 tilkynningar á mánuði, fyrstu sex mánuði ársins 2022,“ segir hún.

„Eins og undanfarin ár erum við þátttakendur í að koma mikilvægum og skýrum skilaboðum til allra varðandi 16 daga átakið. Á þennan hátt getum við sáð fræjum til einhverra sem búa við bágar aðstæður og segjum: „Soroptimistar hafna ofbeldi.“

Til að vekja athygli á átakinu hafa Soroptimistar óskað eftir því við utanríkisráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, að hún beiti sér fyrir því, eins og forverar hennar hafa gert, að öll sendiráð okkar Íslendinga erlendis verði roðagyllt þessa sextán daga sem átakið stendur yfir. Í ár bætum við um betur og óskum eftir því að öll ráðuneyti á Íslandi verði roðagyllt. Þessi áskorun nær einnig til allra opinberra bygginga á Íslandi og þar spila klúbbarnir lykilhlutverk í að roðagylla landið með því að hvetja sín sveitarfélög og kirkjur til þess. Hér á landi eru starfandi nítján Soroptimistaklúbbar,“ segir Guðrún Lára.

„Stjórn landssambands Soroptimista á Íslandi er í marga mánuði að undirbúa verkefnið og hefur hver stjórnarkona sitt hlutverk í því en við deilum verkefnum niður á okkur. Haldnir eru fundir með Soroptimistasystrum í Evrópu þar sem verið er að miðla upplýsingum og ákvarðanir teknar um hverjir séu áhersluþættir átaksins.

Áherslan í ár felst í fræðslu um hvernig koma megi auga á og stöðva ofbeldi í nánum samböndum. Þessi fræðsla þarf að koma fyrir sjónir almennings meðal annars með milligöngu Soroptimista með því að deila þeim fróðleik sem þegar er til hér á landi um þetta mikilvæga málefni. Þar skiptir upplýsingasíða 112 miklu máli.

Í ár mun stjórn landssambands Soroptimista ásamt klúbbunum um land allt styrkja tvö verkefni, annars vegar Sigurhæðir og hins vegar Kvennaathvarfið sem ætlar að byggja nýtt neyðarathvarf. Húsið yrði fyrsta sérhannaða neyðarathvarfið á Íslandi fyrir konur og börn sem eru að flýja ofbeldi.

Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikning Soroptimistasambands Íslands, 0319-13-701113, kennitala 551182-0109.“

Afhending styrkja fer fram 10. desember á degi Soroptimista,“ segir Guðrún Lára en vel hefur gengið að vekja athygli á málinu. „Ég hef setið sem forseti samtakanna í tvö ár og greini mun á því hversu mikla athygli verkefnið fær milli ára, að ekki sé minnst á að konur í samtökunum eru frjóar í að vekja athygli fólks á átakinu með alls kyns söluvarningi og hinum ýmsu uppákomum.

Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á. Samtökin vinna að bættri stöðu kvenna, að mannréttindum öllum til handa sem og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlega vináttu og skilning að leiðarljósi. Soroptimistar stuðla að menntun kvenna og stúlkna til forystu.

Soroptimistar um allan heim munu slást í för með um 6.000 samtökum í 187 löndum sem leidd eru af Sameinuðu þjóðunum til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi gegn stúlkum og konum með þátttöku í 16 daga átakinu #roðagyllumheiminn, #orangetheworld. Roðagyllti liturinn sem er litur átaksins táknar bjartari framtíð án ofbeldis gegn konum og stúlkum.