Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, er margt til lista lagt. Hann er vel þekktur fyrir einstaka hæfileika sína í kökugerðarlist og hefur í gegnum árin sérhæft sig í gerð afmæliskaka. Dóttir ráðherrans hélt upp á afmæli sitt í dag og bakaði Bjarni í tilefni af því Pets-afmælisköku.

Þóra Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona Bjarna, sagði í síðustu viku í viðtali við Fréttablaðið að dóttir þeirra biði spennt eftir kökunni.

„Bjarni hefði getað orðið góður arkitekt eða ljósmyndari og hann er með mikla ljósmyndadellu. Tekur mjög góðar myndir sem kemur sér vel við ýmis tilefni. Ég sé hann fyrir mér í einhverju skapandi seinna á lífsleiðinni, en þangað til þá fær hann smá útrás fyrir sköpunargleðina í afmælistertum barnanna okkar. Yngsta dóttir okkar bíður núna spennt eftir Pets-köku fyrir afmælið sitt um næstu helgi.”

Hans verði minnst fyrir kökugerð en ekki stjórnmál

Miðað við útlitið á kökunni má gera ráð fyrir að dóttirin hafi verið glöð. Í það minnsta lofsama Instagram-vinir ráðherrans hans á samfélagsmiðlum þar sem hann birti mynd af kökunni fyrr í dag.

„Þín verður minnst í sögunni fyrir kökugerð ekki sem stjórnmálamann,“ segir einn á meðan annar segir „Alveg meðetta!“.

View this post on Instagram

Afmæliskaka

A post shared by Bjarni Benediktsson (@bjarnibenediktsson) on

Hundakaka í fyrra

Bjarni skreytti fyrir ári síðan hundaköku fyrir dóttir sína. Á henni voru þrír snotrir hundar, með matarskál og skilti sem á stendur „Varúð!!! Afmæli“. Svo virðist líka sem að einn hundanna hafi gert þarfir sínar á kökuna.

Bjarni hefur sjálfur talað um kökugerðina og að hann fylgi því sem krakkarnir vilji í hvert sinn. Sama hvort það sé Lína langsokkur eða eitthvað annað. Hann sagðist vera lunkinn í höndunum og hafa gaman af því að gera fína hluti, en að hann hafi sjaldan tíma til þess. Hann sagði það skemmtilegasta við að gera svona köku vera að sjá andlitin á krökkunum.

Myndbandið þar sem hann ræðir kökugerðina er hægt að horfa á í heild sinni hér að neðan.