Bjarni M. Bjarnason rithöfundur er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2019. Tilkynnt var um þetta á menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem haldin var á Garðatorgi í gær.

Bjarni á að baki ellefu skáldsögur auk níu annarra ritverka á ferli sínum og hefur hann birt ljóð sín í blöðum og tímaritum frá unglingsaldri. Árið 1989 kom fyrsta bók Bjarna út, ljóðabókin Upphafið, og síðar sama ár birtist á prenti bókin Ótal kraftaverk sem inniheldur prósaljóð.

Önnur skáldsaga Bjarna, Endurkoma Maríu, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1996 og tveimur árum síðar hlaut hann Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir skáldsöguna Borgin bak við orðin. Þá hlaut Bjarni Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness árið 2001 fyrir skáldsöguna Mannætukonan og maður hennar.

Nýjasta skáldsaga Bjarna, Læknishúsið, kom út í lok árs 2018 en hún fjallar að hluta til um sjálfsævisögulegar hliðar frá því að Bjarni bjó um tíma í gamla Læknishúsinu á Eyrarbakka. Hann var þá tíu ára gamall og bjó með öldruðum frændum sínum, öðrum blindum en hinum mállausum.