Bjarn­ey Anna Jóhannes­dóttir er ung lista­kona frá Akureyri sem hefur gefið út tvo geisla­diska, málað, teikna og búið til alls­konar skúlptúra. Nýjasta á­huga­mál hennar er að búa til augu frá grunni sem hún hefur notað bæði í skart­gripagerð ásamt því að sam­eina það á­huga­máli sínu á dúkkum.

„Þetta byrjar eigin­lega allt í dúkkunum, utan við listina. Fyrst byrjuðu mál­verk og svo fékk ég brennandi á­huga á dúkkum og þar lærði ég að búa til augu úr resin. [Resin er efni sem nota má til ýmissa verka.] Þá lærði ég að ég get gert ýmis­legt úr resini og að ég gæti jafn­vel búið til mínar eigin fyrir­myndir og tekið mót af þeim og gert eftir­myndir,“ segir Bjarn­ey í við­tali við Frétta­blaðið.

Dúkka sem Bjarney gerði upp
Mynd/Bjarney

Bjarn­ey er lista­kona í húð og hár. Hún er sjálf með Asper­ger-heil­kenni og vill hún vera góð fyrir­mynd annars fólk á ein­hverfurófinu.

Að­spurð um það hvort það sé ekki erfitt að móta og skapa segir Bjarn­ey að það sé aðal­lega tímafrekt.

„Þetta er aðal­lega sá tími sem maður ver í að læra hlutina. Þetta er ekki beint erfitt af því að ég hef gert þetta svo oft en ég hugsa um þetta sem fjár­festingu á tíma. Tíminn sem maður ver í hlutina verður síðan að hæfi­leikum,“ segir Bjarn­ey.

Augu í vinnslu
Mynd/Bjarney

Bjarn­ey segist lengi hafa haft á­huga á dúkkum en í kringum árið 2010 stig­magnaðist á­huginn og hún fór að safna sér dúkkum til þess að endur­gera þær eftir sínum eigin hug­myndum.

„Ég tek þær ekki beint í sundur en ég tek augun úr sumum, stundum teikna ég á þær ný augu en stundum tek ég þau út og set ný augu í eftir henti­semi. Ég tek allt af dúkkunum ef ég ætla að gera þær virki­lega að mínum. Þá tek ég af þeim það sem kallast factory málning og mála þær upp á nýtt og geri handa þeim nýja auka­hluti og svo­leiðis,“ segir Bjarn­ey.

Tvö ár á milli mynda
Mynd/Bjarney

Á­hugi Bjarn­eyjar kviknaði eftir að hún fór að skoða þessa list á netinu en segist hún þó alltaf hafa haft sér­stakan á­huga á dúkkum frá því að hún var pínu lítil.

„Það er viss tjáning í þessu. Það er mjög erfitt að lita nælon hár og ég hef ekki búið til hár­kollur úr venju­legu dúkku­hári en hins vegar hef ég svo­lítið verið að nota akríl­garn og ný­lega keypti ég mér bambusull og ég hef verið að nota það. Það er mjög fal­legt efni í dúkku­hár. En ég hef ekki gert allar hár­kollurnar sjálf sem ég nota, al­mennt er auð­veldara að setja bara nýtt hár á þær,“ segir hún.

Notar gjarnan akrílgarn eða bambusull í hárkollugerð
Mynd/Bjarney

Bjarn­ey hefur lengi dundað sér við list og hefur hún nú þegar haldið fimm list­sýningar.

Árið 2013 gaf hún út sinn fyrsta geisla­disk undir lista­manns­nafninu Fnjósk og hélt hún list­sýningu þá þar sem hún notaði dúkku í eitt verkið.

„Ég var með list­sýningu þar sem ég var með inn­setningu fyrir hvert einasta lag á plötunni og ein af inn­setningunum var dúkka sem var að gera hluti. Ég var nokkuð ung og lagið var svona svo­lítið eins og þegar fólk byrjar fyrst að semja. Þá semur það oft svo­lítið sorg­leg lög. Ég vil meina að það sé að venta, eða fá út­rás fyrir til­finningar sem þau hafa aldrei áður fengið út­rás fyrir og þegar það er komið að þá er auð­veldara að semja alls­konar lög. Lagið var mjög blóðugt og dúkkan var blóðug og ég man eftir því að ég endaði á því að þurfa að binda hana við gólfið með girni vegna þess að það voru alltaf krakkar að fara inn á básinn og reyna að taka hana,“ segir Bjarn­ey og hlær að minningunni.

Hluti af þeim dúkkum sem Bjarney hefur endurgert
Mynd/Bjarney

Bjarn­ey var á list­náms­braut í fram­halds­skóla og hefur hún einnig tekið nokkur list­nám­skeið. Í dag stundar hún nám við tón­listar­skólann á Akur­eyri á skapandi braut.

„Ég myndi segja að allir séu að ein­hverju marki sjálf­lærðir þó þeir hafi farið í skóla. Ég er sjálf­lærð í mjög mörgu og ég hef áður sagt að ég hef í rauninni ekki neinn hæfi­leika þannig séð, ekki svona með­fædda. Eini hæfi­leikinn sem ég hef er að dýfa mér ofan í hlutina og verða svo­lítið „ob­sessed“ með þá. Ég á það til að kafa á botninn. Eins og þegar ég fékk á­huga á snyrti­vörum þá leið ekki á langt þangað til að ég var farin að búa til mína eigin vara­liti. Ég las mig til um það og bjó til þessa fínu upp­skrift sem mér finnst enn­þá betri en margir vara­litir í dag. En ég er hætt því núna, þetta var of messý,“ segir hún og skellir upp úr.

Listaverk eftir Bjarneyju
Mynd/Bjarney

Bjarn­ey segist þekkja nokkrar mann­eskjur hér­lendis sem hefur mikinn á­huga á tísku­dúkkum og að það sé einnig stór hópur af fólki á netinu sem deilir sama á­huga­máli.

„Margar dúkkurnar fá sitt eigið líf og karakter og það er hópur af fólki sem býr til sögu­per­sónur í kringum dúkkurnar sem það býr til. Gera jafn­vel dúkkur af frægu fólki,“ segir hún og út­skýrir að margir fari með dúkkurnar í al­vöru mynda­töku. „Þær eru mjög þægi­leg módel af því að þær ráða engu sjálfar. Ljós­mynda­módel hafa oft eitt­hvað að segja um tjáningu og svona en með dúkkurnar þar stjórnar ljós­myndarinn gjör­sam­lega öllu, það getur verið annað hvort gott eða slæmt.“

Hálsmen sem Bjarney hefur búið til sjálf
Mynd/Bjarney

Geisla­diskarnir tveir sem Bjarn­ey hefur gefið út heita Rap Manicure sem hún gaf út árið 2013 og diskurinn Who are you? sem hún gaf úr árið 2018.

„Svo er ég að vinna í fleiri lögum núna. Ég er svo­lítið að læra að koma tón­listinni minni á fram­færi því maður þarf að vera svo­lítið frekur en ég hef aldrei verið frek. Ég er að læra það núna,“ segir Bjarn­ey á­kveðin.