Lífið

Bjargaði smá­fugli í krútt­legasta mynd­bandi dagsins

Fuglavinurinn Margrét Pálsdóttir nuddaði lífi í auðnutittling sem flaug á rúðu í gær. Hún tók það upp á myndband og deildi með Facebook-vinum.

Margrét gefur fuglunum á hverjum degi. Mynd/Berghildur Erla Bernharðsdóttir

Ég var að vinna hér við tölvuna og heyrði bara skellinn. Svo sá ég hann poppa niður,“ segir fuglavinurinn Margrét Pálsdóttir, sem hlúði að rænulausum auðnutittlingi sem flaug á rúðu á húsinu hennar í gær. Sérstaklega krúttlegu myndbandi af því þegar hún nuddaði lífi í fuglinn deildi hún á Facebook.

Margrét segist hafa óttast að fuglinn væri dauður. Hún hafi samt ákveðið að sækja símann og prófa að mynda það þegar hún tæki auðnutittlinginn upp. Eins og heyra má í myndbandinu talar hún mjög blíðlega til fuglsins. „Ég var ekkert að hugsa um myndbandið þegar ég var að tala við hann, eins og hann væri smábarn,“ segir hún og hlær. Skemmst er frá því að fuglinn flaug sína leið þegar hann hafði jafnað sig í lófa Margrétar.

Eins og áður segir er Margrét mikill fuglavinur. Hún býr í Fossvogi og gefur fuglunum hýðislaus sólblómafræ í stórum stíl. Í trénu sem er við húsið hanga ekki færri en sex fóðurkörfur, en fræin kaupir hún í sekkjum. Á meðal fastra gesta eru skógarþrestir, svartþrestir, auðnutittlingar, barrfinka og krossnefir, en tvær síðastnefndu tegundirnar tilheyra hópi flækingsfugla á Íslandi. Þeir eru því ekki á hverju strái. Að auki sækir andapar Margréti heim á hverjum degi. Hún segir að sólblómafræin taki fuglarnir jafnvel fram yfir epli.

Margrét segir að fuglalífið sé svo mikið í garðinum hennar að barnabörnunum detti vart til hugar að kveikja á sjónvarpinu, þegar þau heimsækja hana. „Þau fara bara í fuglabíó hjá mér,“ segir hún glöð í bragði og segir að fuglarnir gefi lífinu svo sannarlega lit. Hún hvetur aðra Íslendinga til að gefa fuglunum – þeir þurfi ekki síður á því að halda á vorin.

Auðnutittlingur og barrfinka við veisluborðið í vetur. Ljósmynd/Margrét Pálsdóttir

Aðspurð segir Margrét að hún verði stundum vör við ketti í garðinum en hún reynir að stugga þeim burt, stundum með vatni. „Ég vil hvetja fólk til að hafa bjöllur á köttunum sínum. Þá fá allir að lifa í sátt og samlyndi.“ 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Lífið

115 þús­und krón­a „skap­a­­tref­ill“ vek­ur lukk­u netverja

Lífið

Idol-stjarna hand­tekin fyrir dreifingu heróíns

Kynningar

Hús með öllu í fyrsta sinn á Íslandi

Auglýsing

Nýjast

Geir glæsilegur í galaveislu í Washington

Skálmeldingar hlustuðu á Sorgir

Stefnum í öfuga átt í geðheilbrigðismálum

Faðirinn gleðst yfir heilmynd af Amy Winehouse

Leggst undir hnífinn á skurðarborðinu

Fundur Kanye og Trump tekinn fyrir í SNL

Auglýsing