„Það er okkar samfélagslega ábyrgð að hlúa að villiköttum, segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir í stjórn dýraverndunarfélagsins Villikettir. Hafin er fjáröflun með liðsinni súkkulaðiframleiðandans Omnom fyrir samtökin.

Omnom styrkir Villketti með sölu á sérstöku vetrarsúkkulaði sem er einungis til í takmörkuðu upplagi. Súkkulaðið heitir Drunk Raisins + Coffee. „Við elskum ketti og höfum fylgst vel með merkilegu starfi Villikatta í gegnum tíðina. Omnom vill gera allt í sínu veldi til þess að vekja athygli á mikilvægum málefnum og var því kjörið að gera það með nýja vetrarsúkkulaðinu okkar sem er einungis til í takmörkuðu upplagi. Við vonum að sem flestir leggi samtökunum lið,“ segir Kjartan Gíslason einum af stofnendum Omnom og súkkulaðigerðarmaður.

Félagasamtökin Villikettir vinna að því að bæta líf villi- og útigangskatta á Íslandi á sama tíma og spornað er við fjölgun þeirra. Þau notast við alþjóðlega aðferðafræði, TNR (e. Trap, Neu­ter, Ret­urn), eða fanga, gelda, skila.


„Við eigum að sjá til þess að þeir fái skjól og að borða og fái að klára lífsferil sinn í því umhverfi sem þeir eru fæddir í og þekkja sem heimili sitt. Við setjum upp matargjafir og einnig skjólkassa alls staðar þar sem við komum því við. Við teljum að aflífun á villiköttum sé gamaldags og úreld aðferð sem virkar ekki til lengdar. Betra er að stemma stigum við þeim með því að gelda og sleppa, því villikettirnir sjá um að engir nýir ógeldir vergangskettir setjist að á þeirra svæðum. Ef allir væru aflífaðir þá kæmu bara nýir ógeldir í staðinn, því svæðið er hagstætt til búsetu fyrir villiketti, þannig þyrfti að stunda óþarfa aflífanir á dýrum sem eru ekki fyrir neinum, valda ekki neinu ónæði og eru frekar til góðs til að halda niðri rottum og músum,“ segir Arndís.

„Með þessu erum við að koma í veg fyrir að kettlingar fæðist úti við ömurlegar aðstæður og deyji jafnvel úr sjúkdómum eða vosbúð. Einnig dregur úr slagsmálum fressa við það að gelda þá. Þannig verður meira jafnvægi í villikattasamfélaginu, hvorki breima læður né heldur eiga sér stað slagsmál um læður,“ segir Arndís.


Fyrst þegar samtökin hófu starfsemi sína mættu Arndís og félagar mótstöðu. „Fyrst þegar við vorum að byrja þá var svona tæplega tekið mark á okkur."Að bjarga villiköttum - til hvers - er ekki bara best að skjóta þetta? Ekki leið þó á löngu þar til sterkar raddir komu inn, dýraverndunarsinnar sem fögnuðu okkur og í dag er öldin önnur, segir Arndís en félagið Villikettir er með tugi þúsunda sem fylgjast með síðum þeirra á Facebook og SnapChat. „Dýraverndunarsamband Íslands studdi okkur dyggilega frá upphafi með með Hallgerði Hauksdóttir, formanni, í forsvari,“segir Arndís.

„Flestir villikettir halda sig fjarri íbúðahverfum, þeir eru oftast þar sem er skjól og matur - í nágrenni við iðnaðarhverfi eða hafnarsvæði og nálagt gripahúsum og hlöðum í sveitunum. Villikettir eru dauðhræddir við mannfólk og leita aldrei inn í hús og halda sig oftast í felum þar til farið er að hægja á mannaferðum á kvöldin og næturnar. Kettir sem fólk sér við heimili sín eru oftast heimiliskettir eða týndir heimiliskettir sem við köllum vergangsketti - en það eru kettir sem hafa einhverntíman átt heimili en mögulega verið týndir í einhvern tíma. Flestum fiskverkendum og öðrum atvinnurekendum á iðnaðarsvæðum þykir orðið vænt um villingana sína og sjá um að gefa þeim að borða. Í staðinn halda kettirnir músum og rottum í skefjum,“ segir Arndís.


 

Munurinn á villiketti og vergangsketti er sá að villiköttur er fæddur úti og hefur aldrei átt neitt samband við fólk. Vergangsköttur er fyrrum heimilisköttur sem hefur týnst eða villst frá heimili sínu og hefur jafnvel verið á vergangi í einhver ár. Hann gæti átt það til að laumast inn í hús ólíkt villiketti. Vergangsköttur getur líka hagað sér eins og villiköttur til að byrja með þegar hann kemur í búr en svo ef manneskja vinnur traust hans á ný þá getur hann auðveldlega aftur orðið heimilisköttur. Við erum frekar fljót að átta okkur á því hvort um villi- eða vergangskisu er að ræða,“ segir hún.

Arndís segir félagið Villiketti vilja stöðva aflífanir kattana. „En í staðinn nota aðferð sem kallast TNR (Trap Neuter Return) sem snýst um það að fanga villiketti í fellibúr, fara með þá til dýralæknis til læknisskoðunar, láta gelda/taka úr sambandi og taka lítinn bút af toppi vinstra eyra til að merkja þá sem gelda villiketti sem eru búnir að fara í gegnum TNR prógrammið.- Með því að nota þessa merkingu þá er auðvelt að sjá hvaða kettir eru villikettir sem búið er að gelda og ef kisa er eyrnamerktur þá veistu að einhver er að gefa honum að borða og hlúa að honum. Síðan skilum við þeim svo aftur heim til sín þar sem þeir voru fangaðir,ׅ“ segir Arndís frá.

Alþjóðleg merking villikatta

Þótt einhverjum gæti fundist það fara gegn heill dýranna að klippa bút af eyranu segir Arndís það mikilvægt.

„Það er okkur algjörlega nauðsynlegt að klippa lítinn bút ofan af eyra því starfið væri óvinnandi annars. Þegar við komum inn í villikattasamfélag þar sem búa um 20 kisur og allar eins á litin þá vitum við ekki hvennær starfi okkar er lokið nema að vera með þessa eyrnamerkingu. Að auki þá er þetta alþjóðleg merking geldra villikatta. Við útbúum við skjól fyrir þá og sjáum til þess að þeir fái að borða daglega og fylgjumst með heilsufari þeirra og líðan. Við viljum að þeir fái svo að kára líf sitt í þeim heimkynnum sem þeir þekkja best - þar sem þeir fæddust. Við viljum að TNR aðferðin verði viðurkennd aðferð á Íslandi til að halda fjölda villikatta niðri. Það er okkur mikið kappsmál að þeir séu ekki aflífaðir eða - skotnir á færi eins og enn gerist í sveitum landsins, þó það sé bannað samkvæmt lögum,“ segir Arndís.

Arndís segir að hægt sé að manna litla villikettlinga sem fæðast úti. „Við viljum bjarga inn litlum kettlingum sem eru enn nógu ungir til að hægt sé að mannvenja þá - eða "manna" eins og við köllum það, því litlir kettlingar sem fæðast úti og hafa ekki umgengist mannfólk eru hræddir við menn og þurfa því að læra að treysta mannfólkinu og tengjast því og læra að mannfólkið ætlar ekki að vinna þeim mein - en villilæðan, mamman þeirra, kennir þeim frá fæðingu að varast mannfólk og fela sig fyrir því. Ef villikettlingar komast nógu snemma í hús, ekki seinna en ca. 4 - 6 mánaða þá er hægt að mannvenja þá og gera gæfa svo þeir aðlagist vel inn á heimili. Fullorðna villiketti er ekki auðvelt að mannvenja, þeir geta hænst að ákveðinni manneskju og þá bara henni. Þetta tekur langan tíma, jafnvel ár og svona villiköttur verður aldrei týpískur heimilisköttur,“ segir Arndís.

Fyrirtækjaeigendur vilja nábýli villikatta

Arndís giskar á að það séu vel á annað þúsund villikettir á Íslandi. „Algengustu búsvæðin við sjávarsíðuna, við gámasvæði eða iðnaðarsvæði þar sem er eitthvað æti, stundum í hraungjótum nálægt svæði þar sem er æti. Fyrirtækjaeigendur vilja flestir hafa villikettina í sambýli við sig þar sem þeir halda burtu músum og rottum við fyrirtækin. Við mætum yfirleitt mikilli velvild hjá þeim fyrirtækjaeigendum sem við höfum verið í samskiptum við á búsvæðum villikatta. Villikettir eru mjög harðgerðir og duglegir að finna sér skjól. Kettir geta troðið sér inn um þröngar glufur og eiga sér sína staði. Þeir þekkja heimkynni sín mjög vel og vita hvar er að finna mat og skjól. Villikettir eru með þykkari feld en heimiliskettir og oft duglegir að bjarga sér - þeir fá sinn vetrarfeld. Þegar búið er að gelda villikettina þá eiga þeir auðveldara með að vera í góðum holdum, læðurnar þurfa ekki lengur að ganga nærri sér eins og þegar þær eru með kettlinga á spena og fóðrum og fressirnir hætta að mestu að slást og deila um yfirráðasvæði. Þegar slagsmálum fækkar þá fækkar líka áverkum á köttunum sem stundum geta leitt þá til dauða vegna sýkinga,“ segir Arndís.

„Það er erfitt að horfa uppá þessa dýr og þá sérstaklega læðurnar sem eru kettlingafullar trekk í trekk og oft líkamlega búnar á því aðeins nokkurra ára. EN þegar búið er að gelda/taka úr sambandi þá hefur fullorðni villikötturinn það fínt, það vitum við því við fylgjumst með þeim. Við teljum okkur vera orðin sérfróð um hegðun villikatta á Íslandi eftir að hafa fylgst með þeim í fimm ár, þá bæði fyrir og eftir geldingu.Okkur ber hreinlega að hjálpa þessum dýrum á mannúðlegan hátt.“