Hjalla­kirkja býður lands­mönnum á sér­staka Bítla­messu á eftir klukkan 17:00. „Við erum að­dá­endur alls­konar tón­listar,“ segir Séra Sunna Dóra Möller, sóknar­prestur skelli­hlæjandi spurð að því hvort hún sé sér­legur Bítla­að­dáandi.

„Við erum búin að vera að reyna okkur á­fram í allan vetur með alls­konar ó­hefð­bundið helgi­hald og höfum verið að taka alls­konar,“ segir Sunna og rifjar upp að fyrir og eftir ára­mót blés sóknin til sér­stakrar Abba messu.

„Nú á­kváðum við að keyra á Bítlana og erum gífur­lega spennt. Þetta eru tvær hljóm­sveitir sem hafa náttúru­lega breytt tón­listar­sögunni og Bítlarnir sér­stak­lega,“ út­skýrir Sunna. Hún segir fátt meira við­eig­andi með hlýnandi veður­fari vorsins en Bítla­messa.

„Þetta hefur vakið mikla at­hygli og þegar við vorum með Abba messuna fyrir jól þá fylltum við kirkjuna. Þannig við finnum það að fólk hefur á­huga á því þegar við leikum okkur með tón­listina og helgi­haldið,“ segir Sunna.

Hún segir að­spurð Bítlana fara geysi­lega vel með helgi­haldi. „Al­gjör­lega! Ég fékk þessa spurningu líka þegar við vorum með Abba messuna, því Abba er kannski ekki beint tengt trúnni en ég held að tón­list í sjálfu sér, sé svo þétt­ofin öllu sem við gerum í helgi­haldinu. Við munum syngja All You Need Is Love og allt þetta og við finnum alltaf ein­hvern þráð.“

Sunna segist að­spurð ekki gera ráð fyrir öðru en fullri kirkju á sunnu­dag. „Við förum ekkert af stað með minni væntingar en þetta. Við þurfum að setja markið hátt og vonum bara að fólk hafi gaman af því að koma, því við erum með frá­bæra tón­listar­menn. Þetta eru al­gjörir snillingar.“