Guðrún Svava flutti til Íslands frá New York í upphafi COVID. Í dag fæst hún við markaðsstörf hjá tæknifyrirtæki, heldur utan um kennaranám í Pilates ásamt því að kenna jóga og Pilates. Það er því ótalmargt sem hún þarf að huga að.

Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér?

„Dagarnir hafa verið misdæmigerðir í COVID. Sem betur fer er ég komin með góða morgunrútínu sem virkar vel fyrir mig. Ég vakna, drekk stórt vatnsglas, fæ mér gott kaffi, stunda jóga og fer í bað (sem ég elska). Síðan mæti ég í vinnuna, sem er fjarvinna að mestu núna, milli 8 og 9 og vinn til 16-17. Suma dagana kenni ég við Listaháskóla íslands, þá byrja ég daginn inni í dansstúdíói með fullan sal af nemendum.“

Guðrún Svava leggur mikla áherslu á heilbrigðan lífsstíl. „Ég fasta yfirleitt til hádegis, en ég borða yfirleitt ekki fyrr en ég finn fyrir svengd. Svo elska ég að elda mat, elda oft eitthvað hollt og gott á kvöldin, prófa mig áfram með indverska matseld eða ítalska. Ég elska til dæmis að veganisera fallega, ítalska pastarétti.“

Guðrún Svava hefur tvisvar verið búsett í New York þar sem hún stundaði nám og starfaði hjá „start-up“ fyrirtæki í heilbrigðistækni. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Datt ofan í kanínuholuna

Guðrún Svava rifjar upp sín fyrstu kynni sín af jóga. „Ég held það hafi verið þegar ég „uppgötvaði“ Bítlana sem unglingur, tónlistina þeirra og aðra tónlist sem kennd er við 60’s eða hippatímabilið. Þegar ég hlustaði á texta þessara tónlistarmanna, til dæmis hjá George Harrison, þá óx líka forvitnin um þetta nirvana sem allir virtust vera að tala um í textum og þar datt ég ofan í kanínuholuna,“ segir hún glettin.

„En fyrir alvöru byrjaði ég í líkamlegu jóga þegar ég bjó úti í New York um tvítugt og var að leggja stund á dansnám. Jógað opnaði brjóstið mitt og gjörbreytti líkamsstöðu minni sem dansara og ég tala iðulega um það í kennslunni minni í dag.“

Öðruvísi ástarsamband

Kynni hennar af Pilates voru af öðrum toga. „Pilates kynntist ég blessunarlega af illri nauðsyn. Það voru kannski ekki eins rómantísk kynni og með jógað en hins vegar allt öðruvísi ástarsamband. Mér var bent á ákveðna Pilates-miðstöð meðan ég var í dansnáminu og hafði verið meidd í talsverðan tíma. Ég var ekki með sjúkratryggingu úti og enga getu til að borga læknismeðferð úr eigin vasa. Ég prófaði þrjá tíma í Pilates og – lét læknast!“

Pilates-kennari Guðrúnar Svövu gegndi þarna veigamiklu hlutverki. „En sannleikurinn er sá að það sem hjálpaði mér með meiðslin var sambland af æfingum og ótrúlega flottum og vel menntuðum kennara sem ég lenti á. Hún er fyrrverandi dansari við Alvin Ailey dansháskólann og bæði hjálpaði mér af stað eftir meiðsli og hjálpaði mér á braut Pilates-kennarans.

En mig hafði ekki órað fyrir að Pilates-kennarar gætu verið svona færir, fullir af innsæi, þekkingu og sköpunarkrafti. Hún hvatti mig áfram í Pilates-nám sem ég lauk, en námið leggur áherslu á meiðslafyrirbyggingu og „evidence based exercise“.

Það eru tólf ár síðan en nú er ég byrjuð að halda sama Pilates-kennaranám á Íslandi í samstarfi við the Kane School Pilates-skólann í New York borg.“

Guðrún Svava býður upp á viðurkennt kennaranám í Pilates.

Rómantísk áhrif Bob Dylan

Guðrún Svava er vel kunnug New York en hún var fyrst búsett þar á árunum 2009-2013 á meðan hún lagði stund á dansnám í Martha Graham dansskólanum. Hún sérhæfir sig í svokallaðri Graham-nútímadanstækni sem þykir afar krefjandi.

„Það var gestakennari við dansskólann minn þegar ég var unglingur sem var mjög hrifinn af þessari tækni og hvatti mig til þess að læra meira í henni, en þessi tækni er ein hin tæknilega erfiðasta danstækni sem til er. Síðan, eftir dansferðalag til New York og inntökupróf við Martha Graham skólann þar sem ég fékk inngöngu, ákvað ég að slá til og hefja nám.

Valið stóð á milli das Theaterschool í Amsterdam, Trinity Laban í London eða Martha Graham í New York, og ég valdi New York. Ég var undir einhverjum rómantískum áhrifum af Bob Dylan og myndum Woody Allen og meðal annars vegna djúpstæðrar andlegrar tengingar við Martha Graham tæknina sem er mér mjög mikilvæg og kær.“

Guðrún Svava er meðal annars lærður Jivamukti jógakennari.

Verkfræði-campus á Manhattan

Fjórum árum eftir heimkomuna frá New York lá leið Guðrúnar Svövu til stórborgarinnar á nýjan leik þegar hún hóf nám í verkfræði við hinn virta Cornell-háskóla. Hún segir Cornell hafa orðið fyrir valinu bæði vegna staðsetningar og námsframboðs.

„Þetta er verkfræði-campus á miðri Manhattan en einnig tveggja ára meistaragráða með ritgerð/rannsókn og tvöfaldri gráðu. Meistararannsókn mín var í samstarfi við SÞ og var gerð í kringum sýrlenska og suður-súdanska flóttamenn og upplifanir þeirra af stafrænu viðmóti þeirra stofnana sem þeir neyðast til þess að hafa samskipti við yfirhöfuð.“

Verkfræði og dans hljómar eins og óvenjuleg blanda, hvernig fléttast þetta saman hjá þér? Er eitthvað úr dansinum/jóganu/Pilates sem hefur reynst þér vel í verkfræðinni?

„Aðallega aginn, og það að geta þolað mikinn sársauka á líkamlegu og andlegu stigi. Dansnám er krefjandi og tekur á og það gildir um verkfræðina líka. Eitt sem ég lærði í dansinum en byrjaði að iðka allt of seint var að leyfa mér að mistakast. Ég var lengi á þeirri skoðun að fullkomnun væri rétta leiðin, en sá fljótt þegar ég flutti út í nám að það myndi ekki ganga upp.

Það að fá í hendurnar rútínu, í áheyrnarprufu fyrir sýningu eða hlutverk sem þig langar mjög, mjög mikið í – ekki bara langar í heldur kannski treystir á fyrir salti í grautinn – hvernig geturðu „maximizað“ þinn „performans“ á þessari mínútu sem þú færð til að læra rútínuna og þá mínútu til þess að sýna hana – og mögulega fyrir framan erfiða dómara?

Það eru engar töfralausnir – heldur það að mistakast eins hratt og oft og maður getur. Dansari sem leyfir sér að mistakast hvað eftir annað í sporinu sem hann er að æfa er fljótari að fullkomna það en sá sem hræðist að mistakast.

Sama gildir um verkfræði, að sá sem prófar sig áfram með formúlur sér hvar hann fer villur vegar, leiðréttir sig eða reynir aðra aðferð í framhaldi – nær fljótar árangri, byggir upp taugabrautir, vöðvamynstur, serótónín og jákvæða hegðun. Ég tala um þetta í jógakennslunni líka, þetta er „surfið“.“

Mangótré og heilagar kýr

Guðrún Svava notast mikið við tónlist í jógatímunum sem hún leiðir. „Jógatímarnir sem ég kenni einkennast af samblöndu jógaheimsspeki, ahimsa – (non-harming), hugleiðslu, hreyfingar og í jöfnum mæli tónlistar. Tónlist er ein beinasta leiðin til andlegrar upplyftingar og nota ég tónlistina mjög meðvitað og markvisst í jógatímunum mínum.“

Í kennslunni er farið víða. „Ég tengi einnig jógatímana mína við sögu jóga, menningarlega sögu Indlandsskaga og pólitík í dag.“

Indland er Guðrúnu Svövu afar hjartfólgið en hún hefur heimsótt landið ótal sinnum og stefnir á fleiri ferðir. „Ég hef upplifað tvo indverska vetur og eitt indverskt monsún. Ég fór til að heimsækja vini, upplifa nýja hluti, elta draumana, jóga, tónlist og menningu.

Hér nýtur Guðrún Svava fallegs sólseturs ásamt flækingshundi á strönd í Goa-fylkinu á Indlandi.

Hvað er það sem heillar þig svona við Indland?

„Ótrúleg jarðtenging. Fólkið er salt jarðar og allt er svo frjótt. Það er allt svo lifandi og allt á rétt á sér.

Mangótréð sem svignar undan ávöxtum. Kýrnar heilögu sem ganga lausar í mörgum bæjum næla sér í sætindin sem eru í uppskeru. Það er ótrúlegt sem Íslendingur að koma inn í svona land sem er svo fjölbreytilegt í menningu, tungumálum, trú, matarmenningu.“

Ljóst er að draumar um frekari Indlandsferðir verða að bíða betri tíma en austræna spekin er þó aldrei langt undan. „Bodhisattva er fyrirtækið mitt í kringum kennslu, viðburði og námskeið. Heitið kemur frá sanskrít: „A person who is able to reach nirvana but delays doing so out of compassion in order to save suffering beings,“ sem ég myndi þýða á íslensku nálægt því að vera manneskja sem sýnir öðrum verum samkennd á markvissan og meðvitaðan hátt.“

Áhugasamir um jóga og Pilates geta haft samband við Guðrúnu Svövu á Instagram undir :gudrun_svava og: bodhisattvaiceland