Tómas Tómasson, helsti hamborgarafrömuður landsins, sagði einhvern tíma í viðtali að góður hamborgari væri eins og spennumynd og víst er að þeir geta magnað upp heitar tilfinningar og mikinn hasar.

Lætin byrjuðu á Facebook eftir að fullyrt var í þættinum Um land allt á Stöð 2 að Staðarskáli í Hrútafirði hefði fyrstur byrjað að selja hér hamborgara sumarið 1960. Þetta var snarlega hrakið á Face­book þar sem hver ruddist um annan þveran með gúgli og uppflettingum á Tímarit.is.

Myndlistarmaðurinn Jón Óskar var einn þeirra sem brugðust snarlega við þættinum með þessari fullyrðingu á Facebook: „Hvaða bull er þetta á Stöð 2! Fyrsti hamborgarinn í Hrútafirði?! Fyrsti hamborgarinn var seldur á Strandveginum í Vestmannaeyjum. Maður fékk sama meðlæti og var á pulsum milli tveggja fransbrauðsneiða. Eyjamenn sigldu um öll heimsins höf og komu með allar nýjungar sem skiptu máli! Og gera enn.“

Grillaður á augabragði

„Það er skrýtið hvernig svona mál rjúka upp og allir hafa miklar meiningar um þetta,“ segir Jón Óskar sem var snarlega gerður afturreka með Eyjakenningu sína á eigin Facebook-þræði. „Ég sé það núna að það er búið að finna einhvern hamborgarastað frá 1941 í Reykjavík þannig að ég kolféll á þessu prófi. Það komu svo einhverjir með fleiri ábendingar þannig að ég dró mig bara í hlé.“

Finna má heimildir um hamborgara í Reykjavík í prentmiðlum upp úr miðjum sjötta áratugnum þannig að Hrútafjarðarkenningin er kolfallin. „Ég sá í sjónvarpsfréttum að þeir þykjast eiga þetta sem samfellda sölu síðan 1960 þannig að það eru heilmiklar æfingar í kringum þetta og allir með sínar meiningar,“ segir Jón Óskar og hlær.

Lostæti í Eyjum

„En ég man þegar ég fékk þetta fyrst í Eyjum. Ætli ég hafi ekki verið svona tíu ára. Þar var þetta bara selt í svona venjulegri sjoppu sko, sem seldi aðallega pulsur og sígarettur og svo voru þeir með þetta, hamborgara, sem ég hafði bara aldrei heyrt um. Mér fannst þetta algert lostæti.

Þeir settu bara það sama og var á pulsunum og það er mjög skrýtin samsetning vegna þess að það er bara eins og þú sért að borða pulsu með hamborgarakjöti. Maður getur enn þá fengið þetta í Eyjum,“ segir Jón Óskar en bætir við að franskbrauðssneiðarnar hafi vikið fyrir hefðbundnum hamborgarabrauðum.