For­svars­menn banda­ríska sjón­varps­stöðarinnar Adult Swim birtu um helgina fyrsta mynd­skeiðið úr fjórðu seríu af hinum vin­sælu teikni­mynda­þáttum Rick and Mor­ty. Þættirnir hafa notið gífur­legra vin­sælda síðan þeir komu út í fyrsta sinn árið 2013.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá var tekið fram í maí síðast­liðnum að fjórða serían væri væntan­leg í nóvember næst­komandi. Þá eru liðin rúm­lega tvö ár síðan að sú þriðja kom út en hún kom út haustið 2017.

Þættirnir fjalla eins og flestir vita um furðu­lega vísinda­manninn Rick Sanchez og barna­barn hans, Mor­ty Smith. Saman ferðast þeir um hina ó­endan­lega mörgu al­heima í alls kyns ævin­týrum en þættirnir eru hug­smíð Justin Roiland og Dan Harmon sem tal­setja jafn­framt ýmsar per­sónur. Þeir hafa áður lofað aðdáendum að bið milli sería muni koma til með að styttast í framtíðinni.

Í nýja mynd­skeiðinu má sjá Mor­ty á­samt pabba sínum hinum mis­lukkaða Jerry Smith takast á við undar­lega geim­veru. Tíu þættir verða í fjórðu seríunni og segja þeir Justin og Dan að vinna sé nú þegar hafin að þeirri fimmtu.