Mexíkóski auðjöfurinn Martin Mobarak sætir nú rannsókn mexíkóskra yfirvalda fyrir að hafa vísvitandi brennt teikningu eftir listakonuna Fridu Kahlo, sem metin er á 10 milljónir Bandaríkjadala, andvirði rúmra 1,4 millarða íslenskra króna.

Mobarak, sem er athafnamaður og stofnandi rafmyntarinnar AGCoin, hélt viðburð í glæsihýsi sínu á Miami, Flórída, þann 30. júlí síðastliðinn, þar sem gjörningurinn átti sér stað og hafa myndbönd af honum verið birt á netinu.

Mobarak kveðst hafa umbreytt verki Fridu Kahlo, sem ber titilinn Fantasmones Siniestros og er blek- og vatnslitamynd sem listakonan teiknaði í dagbók sína, í svokallaða NFT-mynd (e. non-fungible token) sem framleidd var í 10.000 stafrænum eintökum er boðin voru til sölu.

Frida Kahlo er einn þekktasti listamaður 20. aldarinnar.
Fréttablaðið/Getty

Í myndbandi sem birt var á YouTube sést Mobarak afhjúpa myndina, fjarlægja hana úr ramma, stilla henni upp á kokteilglasi fullu af þurrís og eldsneyti sem hann kveikir svo í fyrir framan hóp af fólki.

„Ég er stoltur að segja frá því að þessi viðburður mun leysa sum af stærstu vandamálum heimsins til heiðurs Fridu Kahlo,“ er haft eftir Mobarak í myndbandinu. Hann staðhæfði að hluti ágóðans af sölunni myndi renna til góðgerðarsamtaka og stofnana á borð við Fridu Kahlo safnið og Palacio de Bellas Artes í Mexíkóborg.

Ekki er vitað hvort um er að ræða hið upprunalega verk eftir Kahlo, jafnvel þótt Mobarak hafi sagt að svo sé. Mobarak segist sjálfur hafa keypt verkið af listaverkasalanum Mary-Anne Martin árið 2015, en Martin hefur sjálf neitað því að hafa selt honum verkið og kveðst ekki hafa kunnað nein deili á honum.

Lista- og bókmenntastofnun Mexíkó tilkynnti á mánudag að hún myndi rannsaka hinn meinta bruna, á grundvelli þess að verk Fridu Kahlo séu álitin þjóðargersemar þar í landi.