Kvikmyndir

Birta

Leikstjórn: Bragi Þór Hinriksson

Handrit: Helga Arnardóttir

Aðalhlutverk: Kristín Erla Pétursdóttir, Margrét Júlía Reynisdóttir, Salka Sól Eyfeld, Margrét Ákadóttir

Barna- og fjölskyldumyndin Birta er með eindæmum falleg og hjartnæm mynd sem öll börn landsins og fjölskyldur þeirra ættu að sjá í aðdraganda jóla.

Systurnar Birta og Kata búa með einstæðri móður sinni í Bakkahverfinu í Breiðholti og myndin lýsir ósköp hversdagslegum veruleika íslenskrar fjölskyldu.

Við kynnumst harðduglegri móður stúlknanna sem vinnur tvöfaldar vaktir sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum til að ná endum saman hver mánaðamót. Samt á hún aldrei krónu aukalega og á til dæmis hvorki fyrir íþróttaskóm né æfingagjöldum Birtu.

Kvöld eitt hlerar Birta símtal sem hrindir atburðarásinni af stað, en þar segir mamma hennar vinkonu sinni að hana vanti auka 100 þúsund krónur til að geta haldið jól. Símtalið sýnir einnig að gæta þarf að því hvað er sagt í návist barna, þar sem þau taka hluti oft mjög bókstaflega.

Birta tekur enda ráðin í sínar hendur og fer að leita ýmissa leiða til þess að safna peningum til að hjálpa mömmu sinni. Myndin er þannig ágæt áminning til okkar og barnanna okkar, sem lifum og hrærumst í neyslusamfélagi samtímans um að það er ekki allt sjálfgefið og oft þurfi allir að leggjast á eitt, í það minnsta að sýna þakklæti.

Undirrituð fór á myndina með fjölskyldunni og þegar gengið var út úr salnum voru allir, foreldrarnir og bæði börnin yfir sig hrifin.

Sú yngsta, fimm ára stelpa, var meira að segja það hrifin að hún bað um að byrjað yrði á myndinni upp á nýtt. Þá er mikið sagt þar sem daman vill yfirleitt fara út í hléi. Myndin gæti því ekki fengið betri einkunn en þá sem dóttirin gefur.

Dæmið af níu ára syninum segir líka sína sögu en hann fór að þylja yfir systur sinni að vera þakklát fyrir dótið hennar og nýja rúmið sem foreldrar hennar gáfu henni, að það væri síður en svo sjálfsagt. n

Niðurstaða: Hversdagsleg en um leið kómísk og hugljúf mynd fyrir alla fjölskylduna. Leikararnir frábærir og einlægir, sér í lagi stúlkurnar tvær, sem leika systurnar, og skila boðskap myndarinnar einstaklega vel til áhorfenda.