Birki Blær Óðins­son keppir í kvöld í úr­slita­keppni sænska Idolsins í Stokk­hólmi. Hann syngur alls þrjú lög í kvöld, eitt sem hann hefur áður sungið, eitt lag með Adele og svo síðast lag sem að sér­stak­lega er samið fyrir loka­keppnina. Hann og keppi­nautur hans Jacqline Moss­berg Moun­kassa munu bæði syngja lagið.

Móðir Birkis, Elvý Guð­ríður Hreins­dóttir, er stödd í Stokk­hólmi til að horfa á son sinn taka þátt. Hún segir að hún hafi alltaf vitað hversu góður söngvari Birkir er og því komi það henni ekkert á ó­vart hversu langt hann hefur náð.

„En maður kannski þorði ekki að vona það. En ég veit hvað hann er svaka­lega góður söngvari,“ segir Elvý og bætir við:

„Það er sér­stakt að upp­lifa hvað þetta er stórt og hversu hann er vin­sæll. Tón­listin er það sem hann vill gera og þetta er frá­bær stökk­pallur inn í það. “

Hún segir að æfingarnar hafi gengið vel hjá Birki en á ekki von á því að hitta hann fyrr en eftir keppnina í kvöld.

„Hann hefur verið á fullu í við­tölum þannig þetta er búið að vera alveg stöðugt síðustu daga.“

Hún segir að fjöl­skyldan hafi öll upp­lifað sig sem miklar stjörnur.

„Við erum búin að vera í mynda­tökum fjöl­skyldan, og við­tölum,“ segir Elvý og að stemningin sé orðin mjög góð í höllinni þar sem hún er stödd núna.

Hún segir að höllin hafi fyllst hægt og ró­lega og að margir hafi stoppað við skilta­gerðar­stand til að búa til skilti með nafni keppandans sem þau halda með. Hún viður­kennir að það hafi verið freistandi að telja þau sem hafi verið merkt Birki en hafi svo ekki lagt í það, en segir þau nokkuð mörg í salnum með nafninu hans.

„Hann á marga að­dá­endur í salnum.“

Partý á Akur­eyri

Það er ekki bara stemning í Sví­þjóð því á Akur­eyri, heima­bæ Birkis, verður hægt að horfa á keppnina á staðnum Vamos. Hall­dór Kristinn Harðar­son einn eig­andi staðarins segir að stemningin hafi verið góð þar síðustu föstu­daga en þau hafa sýnt keppnina á stórum skjá.

Blaða­maður náði tali af honum um klukku­stund áður en keppnin hófst og þá var fólk byrjað að streyma í salinn. Alls eru um 100 pláss í salnum. Hægt er að kynna sér það betur hér að neðan.