Birgitta Líf Björns­dóttir eig­andi skemmti­staðarins Banka­stræti Club, segist hafa orðið vitni af byrlun með eigin augum. „Ég beið úti með stúlku á­samt starfs­manni þar til sjúkra­bílinn kom,“ segir hún.

Að sögn Birgittu hefur byrlunum fjölgað á skemmti­stöðum mið­borgarinnar síðast­liðnar helgar, hún segir staðinn taka því mjög al­var­lega.

„Ég veit um nokkur til­vik, bæði hjá okkur og öðrum stöðum niðri í bæ núna síðast­liðnar helgar þar sem þetta virðist vera að koma upp og virðist ein­hvern veginn vera að færast í aukana, það er eins og það sé ein­hver far­aldur í gangi,“ segir Birgitta í sam­tali við mbl.is.

Hún segir að farið hafi verið yfir allar upp­tökur um­rædd kvöld en lítið væri hægt að sjá. Þá hafi verið í­trekað við starfs­menn þau ein­kenni sem fólk sýnir ef því er byrlað til að getað gripið inn í. Í þeim til­fellum sem byrlun hafi komið upp á staðnum hafi starfs­menn hringt á sjúkra­bíl og fylgt mann­eskjunni út.

þá veltir hún fyrir sér hvort það sé verið að byrla fólki með því að setja ofan í drykki eða hvort eitt­hvað nýtt sé í gangi. Þá vonast hún til að eitt­hvað fari að koma í ljós, þar sem þetta tengist ekki einum stað og séu fleiri enn einn að verki.

Hún segir að hún sé að skoða frekari að­gerðir á Banka­stræti club í kjöl­far at­viks sem átti sér stað laugar­daginn 9. októ­ber þegar karl­maður ógnaði tveimur öðrum gestum með hníf.

Birgitta segir það sé spurning hvort að næstu skref séu að leitað á fólki á skemmti­stöðum á Ís­landi.

„Síðan er maður að lesa fréttir af klúbbum er­lendis að fólk vilji að það sé leitað á aðilum áður en að það sé komið inn, sér­stak­lega í ljósi nýrra að­ferða þar sem er verið að stinga fólk til að byrla þeim,“ segir hún.

„Maður veit náttúru­lega ekki hvort að eitt­hvað slíkt sé komið til Ís­lands en það er spurning hvort að það sé næsta skref að það sé bara leitað á öllum.“