„Það halda margir að ég sé at­hyglis­sjúk og rosa­lega út á við en einu skiptin sem ég hef virki­lega reynt að fá at­hygli er í tengslum við ein­hver verk­efni. Ég er ekkert rosa­lega mikið fyrir að flagga sjálfri mér, segir Birgitta Jóns­dóttir sem er farin að gera vart við sig aftur á Face­book eftir mánaða­langt hlé.

„Mér fannst ég líka þurfa að gera þetta vegna þess að ég var orðin ó­geðs­lega leiðin­leg. Orðin svo­lítið bitur og gröm og þá er best að draga sig í hlé og finna aftur til á­byrgðar sinnar og rödd sína til þess að geta fundið aftur skapandi orkuna til þess að gera hluti með öðrum. Mér finnst rosa­lega gaman að fara með fólki og gera eitt­hvað. Ég hef alltaf verið svona og ræð ekki við mig.“

Leiðin­lega út­gáfan

Birgitta segist þannig hafa dregið sig út úr skarkala sam­fé­lags­miðlanna og lét sér nægja að fylgjast með fréttum á Twitter en láta allar til­raunir til rök­ræðu um þær eiga sig.

„Ég vildi nú helst ekki vera að bjóða fólki upp á Fýlu-Birgittu. Það er mjög leiðin­leg út­gáfa af sjálfri mér og það er náttúr­lega leiðin­legt þegar manni er farið að leiðast að vera með sjálfum sér. Núna er ég ein­hvern veginn komin aftur í stuð. Langar aftur að vera með og gera hluti. Ég veit ekkert ná­kvæm­lega hvað. Það bara kemur í ljós,“ segir Birgitta sem er þó á báðum áttum þegar hún er spurð hvor leiðin til lífs­hamingju sé vegurinn frá sam­fé­lags­miðlunum.

„Hún er það sko. Ég veit það samt ekki út af því að þetta er tví­eggjað sverð vegna þess að maður missir líka af alls konar skemmti­legu og það er svo stór hluti þjóðarinnar á Face­book. Við lifum alla­vegana á gríðar­lega á­huga­verðum tímum. Það er ekki hægt að segja annað.“

Inn­hverf á Ís­landi

Birgitta segist alltaf hafa forðað sér frá Ís­landi þegar henni finnst hún vera orðin of á­berandi. „Ég hef nefni­lega alltaf farið frá Ís­landi þegar ég verð þekkt. Hvort sem það er í gegnum ein­hverja við­burði sem ég er að gera eða sem rit­höfundur eða eitt­hvað svo­leiðis. Þá fer ég alltaf þannig að ég hef alltaf flutt á svona þriggja ára fresti í eitt ár til út­landa. Síðan upp­götvaði ég að maður getur bara gert ná­kvæm­lega það sama þegar maður þarf svo­lítið að endur­heimta sjálfan sig,“ segir Birgitta sem að þessu sinni fór án þess þó að færast úr stað.

Hún ber lífið á sam­fé­lags­miðlunum saman við reynslu sína af því að búa í þorpi þar sem væntingar og hug­myndir annarra um hver maður sé eða eigi að vera hafi mikil á­hrif.

„Þeir sem ég hef talað við sem hafa búið er­lendis í ein­hvern tíma segjast upp­lifa að þeir verði svo­lítið þeir sjálfir þegar það eru ekki þessar sam­fé­lags­legu hömlur sem maður upp­lifir oft þegar maður býr í svona miklu ná­býli við alla. Þannig að ég get bara farið í mitt intró­vert tíma­bil á Ís­landi sem er mjög þægi­legt,“ segir Birgitta og hlær.

List­rænn gjörningur

Birgitta segir þannig stjórn­málin aldrei hafa verið drauma­djobbið. „Ég hafði aldrei ein­hverja draum­óra um að komast á þing eða vera í stjórn­mála­flokki eða vera ráð­herra eða eitt­hvað svona enda var þetta nánast svo absúrd fyrir mér að mér leið alltaf eins og ég væri í ein­hverjum sjálf­gerðum list­rænum gjörningi.

Ég lærði samt rosa­lega mikið á meðan ég var þarna inni og ég lærði til dæmis að við erum ekki að fara að breyta neinu með nú­verandi lýð­ræðis­kerfi. Hvorki á Ís­landi né annars staðar. Kannski þurfum við bara að hafa smá hug­rekki til að fara í smá ný­sköpun í stjórnar­fari.

Kannski er þetta kerfi orðið svo­lítið úr­elt. Bara eins og gamla fyrsta Makka­tölvan sem ég keypti. Ég meina, það er hægt að keyra hana upp en það er ekkert hægt að gera neitt rosa­lega mikið í henni.“

Ævin­týra­í­búðin aug­lýst á Face­book

Birgitta segist hafa verið orðin gal­tóm þegar hún fór í Face­book-fríið. „Ég verð eigin­lega bara að játa á mig skömmina og að ég svaraði ekki einu sinni tölvu­póstum. Ég var búin með allt. Ég hafði enga orku. Ég hef aldrei verið með aðra eins rit­stíflu á ævinni,“ segir Birgitta, sem byrjaði endur­komuna á því að aug­lýsa í­búðina sína til sölu.

„Ég hef tekið á­kvörðun um að selja ævin­týra­í­búðina mína sem ég hef lagt svo ó­endan­lega mikla vinnu í og elska út af lífinu. Ekki bara hef ég lagt rækt við hið innra, heldur fékk ég loksins tæki­færi að rækta garð og það hefur verið mjög gefandi,“ skrifaði Birgitta á Face­book þegar hún sneri aftur á Face­book til­búin til þess að gefa „smá inn­lit til ein­veru­púkans“ þótt hún hafi „svo sem alltaf verið frekar dul með heima­hagana“.

„Ég setti status um það að ég er að selja í­búðina mína og vonaði að ein­hverjir myndu deila því. Svo vonast ég til að endur­tengjast bara nokkrum vinum mínum og fé­lögum með því að vera inni á Face­book og fylgjast með hvað fólk er að bralla.“