Eins og vera ber var krökkt af stjörnum sem nýttu tækifærið til þess að sýna sig, í sínu fínasta pússi, og sjá aðra á Tribeca kvikmyndahátíðinni sem var haldin í New York í síðustu viku.

Robert De Niro, Jane Rosenthal og Craig Hatkoff stofnuðu til Tribeca Festival árið 2002 og hátíðin hefur verið árlegur viðburður í Tribeca-hverfinu á Manhattan í New York á hverju vori. Upphaflegur tilgangur hátíðarinnar var að blása lífi í menningar- og listalíf á svæðinu í kjölfar hryðjuverkaárásanna árið áður.

Hátíðin býður upp á fjölbreytt, alþjóðlegt úrval kvikmynda, þátta, fyrirlestra, tónlistar úr hinum ýmsu listgreinum. Á hverju ári hýsir hátíðin á sjöunda hundrað sýninga með allt að 150.000 þátttakendum, auk frumsýninga á stærri verkum. Dómnefnd á vegum hátíðarinnar verðlaunar síðan óháða listamenn í 23 keppnisflokkum.

Bandaríski fjölmiðlamaðurinn Ryan Seacrest mætti á frumsýningu Halftime með unnustu sinni, fyrirsætunni Aubrey Paige.
Kvikmyndaframleiðandinn Jane Rosenthal og leikarinn Robert de Niro, stofnendur Tribeca hátíðarinnar stilltu sér upp á rauða dreglinum.
Leikarinn Jon Hamm leikur í kolsvörtu kómedíunni Corner Office. Hamm er þekktastur fyrir leik í skrifstofudramanu Mad Men sem rakti ævi og ástir starfsmanna auglýsingabransans á Manhattan um miðbik síðustu aldar.
Leikkonan Katie Holmes bregður sér í leikstjórastólinn í kvikmyndinni Alone Together, Covid-ástarsögu þar sem hún leikur einnig aðalhlutverkið á móti Jim Sturgess.