Snorri Magnússon, þroskaþjálfi og íþróttakennari, er brautryðjandi í ungbarnasundkennslu á Íslandi en þrír áratugir eru síðan hann byrjaði að blása framan í kornabörn til þess að þau héldu niðri andanum og dýfa þeim síðan í kaf.

Heldur þóttu þessi ósköp undarleg í upphafi og sjálfum fannst mér þetta snargalið 1992, tveimur árum eftir að Snorri byrjaði, þegar barnsmóðir mín skráði frumburðinn í svona feigðarflan. Síðan þá hefur margt breyst og nánast frávik að nýburum sé ekki vippað í sund fljótlega eftir að búið er að klippa á naflastrenginn.

Kannski situr þetta enn svo í mér að ég lagði heldur efins í að horfa á heimildarmyndina Kaf eftir Hönnu Björku Valsdóttur kvikmyndagerðarkonu og myndlistarkonurnar Önnu Rún Tryggvadóttur og Elínu Hansdóttur. En rétt eins og þegar maður hefur komist yfir vatnshræðsluna og stungið sér í djúpu laugina var ekkert að óttast. Síður en svo þar sem Kaf er dásamleg mynd sem heillar og gleður á mörgum ólíkum sundbrautum.

Eftir að hafa notið þess að slaka á yfir fallegri lífsspeki og smitandi leikgleði Snorra og ljómandi andlitum lítilla sundkappa og himinlifandi foreldra átta ég mig enn betur á hversu magnað fyrirbæri ungbarnasundið getur verið og hversu merkilegt starf Snorra í raun og veru er.

Fegurð myndarinnar felst líka ekki síst í því af hversu mikilli alúð vinkonurnar þrjár gera hana enda vissu þær greinilega alveg hvaða fjársjóði þær voru að kafa eftir.

„Það voru barneignir sem sameinuðu okkur fyrir nokkrum árum, við vorum í mömmuklúbbi, mömmujóga og í ungbarnasundi og reynslan af því að vera hjá Snorra situr enn í mér sjö árum seinna. Þetta er svo stór upplifun,“ sagði Anna Rún í viðtali við Fréttablaðið um hvernig hugmyndin að myndinni varð til.

„Við vildum sem mæður og listamenn fjalla um þennan sérstaka tíma, þar sem foreldrar helga sig því verkefni að kynnast nýrri mannveru og vera til staðar fyrir hana. Þetta er dýrmætur tími og ungbarnasundið, sem við höfum allar reynslu af, hreyfði við okkur.“

Og með myndinni tekst þeim svo sannarlega að hreyfa við fólki enda er Snorri stórmerkilegur maður og frábært efni í aðalpersónu kvikmyndar með mátulega dramatíska sögu um vatnshræðslu og sigur á óttanum að baki. Þannig að óhjákvæmilega langar að fá að vita meira og dóla sér aðeins lengur í vatninu með þessum hugsjónamanni hamingjunnar og ómótstæðilega krúttlegum nemendum hans.

Kaf sogar mann einhvern veginn ofan í ótrúlega róandi stemningu, hlýjan heim vatnsins með ósvikinni og orðalausri gleðitjáningu barnsins þar sem Snorri vakir yfir öryggi hvers og eins með gleðisöng og ómótstæðilegum fíflagangi.

„Þetta á að vera gaman,“ segir Snorri sjálfur og það er þetta svo sannarlega. Anna Rún sagði í Fréttablaðsviðtalinu að maður kæmi alltaf glaður upp úr lauginni hjá Snorra og það sama á við um þessa hlýju og blautu mynd um hann.

Niðurstaða: Heimildarmyndin Kaf, um ungbarnasundsfrumkvöðulinn, Snorra Magnússon er heillandi, áhugaverð, undarlega notaleg og róandi bíóupplifun. Áhorfandinn fær að busla með ómótstæðilegum, litlum krílum þar sem Snorri sjálfur er mesta krúttið.