Kvikmyndir

Smile

Leikstjórn: Parker Finn

Leikarar: Sosie Bacon, Jessie T. Usher og Kyle Gallner

Hrekkjavakan er handan við hornið og fyrir vikið hrannast hrollvekjurnar inn í kvikmyndahús og streymisveitur á næstu vikum. Frumburður hryllingsmánaðarins að þessu sinni er myndin Smile, frumraun leikstjórans Parker Finn.

Myndin segir frá geðlækninum Rose Cotter sem upplifði mikinn fjölskylduharm á yngri árum og tekst á við áfallið með því að drekkja sér í starfi. Einn daginn fær hún til sín unga konu í miklu uppnámi sem grátbiður Rose að hjálpa sér en sviptir sig því næst sitt lífi á hrottafenginn máta, skælbrosandi. Í kjölfarið virðist vera sem einhvers konar bölvun hafi tilfærst yfir á Rose sem lendir í hrinu af undarlegum atburðum áður en hún áttar sig á því að hennar eigið líf er í hættu.

Það sem kemur helst á óvart við myndina í samanburði við auglýsingastiklur af henni er hvað hún er merkilega metnaðarfull. Þrátt fyrir að hún sé augljóslega innblásin af hrollvekjum á borð við The Ring og It Follows og stútfull af klisjum þá eru margar ágætis hugmyndir í gangi. Myndataka og hljóðvinnsla er prýðileg og Sosie Bacon stendur sig í hlutverki Rose og tekst að fá áhorfandann á sitt band.

Myndin er þó langt frá því að vera gallalaus og má þar helst nefna hvað söguþráðurinn er langdreginn. Þá eru sum atriðin aðeins of klisjukennd og jafnvel kjánaleg og draga heildaryfirbragðið niður. Á heildina litið þá er myndin þó fínasta skemmtun og bíóferðarinnar virði fyrir alla sem vilja hita upp fyrir hrekkjavökuna.

Niðurstaða: Fínasta hryllingsræma.