Joker

***1/2

Leikstjórn: Todd Phillips

Aðalhlutverk: Joaquin Phoenix, Zazie Beetz, Robert De Niro, Brett Cullen, Brian Tyree Henry, Frances Conroy.

Í kvik­myndinni Joker fá á­horf­endur að kynnast upp­runa­sögu Jókersins, ill­mennisins sem hefur gert Leður­blöku­manninum lífið leitt allar götur síðan hann birtist fyrst í Bat­man-mynda­sögunum 1940. Leður­blöku­maðurinn er þó fjarri góðu gamni að þessu sinni og í hans stað berst Jókerinn við raun­veru­leikann, ömur­legar að­stæður og eigin geð­sjúk­dóma.

Arthur Fleck er mis­heppnaður og furðu­legur grín­isti sem jafn­framt vinnur fyrir sér sem trúður í hluta­starfi. Lífið hefur aldrei verið dans á rósum hjá Fleck og í sögunni sem sögð er í Joker getur vont lengi versnað og röð ó­heppi­legra at­vika sem koma sér­lega illa við Fleck verður til þess að honum er svo gott sem út­hýst úr sam­fé­laginu.

Joaquin Phoenix fer með hlut­verk hins mis­heppnaða Flecks sem hann túlkar ekki síst með líkamanum og hreyfingum þannig að hann passar full­kom­lega inn í þann drunga­lega raun­veru­leika sem hér er lagt upp með að skapa á hvíta tjaldinu.

Phoenix skilar Jókernum með miklum sóma og eflist með hverjum ramma þar sem hann sækir styrk sinn ekki síst í ein­staka tón­list Hildar Guðna­dóttur sem segja má að sé hér í öðru aðal­hlut­verki myndarinnar og ég efast um að annað eins sam­spil aðal­leikara og tón­skálds hafi nokkurn tímann áður sést í kvik­mynd. Þungur tónn Hildar gefur taktinn fyrir horaðan líkama og ein­kenni­legar hreyfingar Phoenix þannig að saman skapa þau hinn realíska Jóker. Lagið Subway er ein­stakt og ekki þarf að koma neinum á ó­vart þótt bæði, leikarinn og kvik­mynda­tón­skáldið, verði á­berandi þegar verð­launa­ver­tíðin hefst í vetur.

Veik­leikar myndarinnar liggja einna helst í hand­ritinu en vendingarnar í lífi Flecks eiga til að verða fyrir­sjáan­legar í þessari upp­runa­sögu eins al­ræmdasta ill­mennis dægur­menningar­sögunnar. Jókerinn lendir í at­burða­rás þar sem hann virkar því miður oft sem far­þegi frekar en gerandi í sögunni, ó­líkt því sem við höfum átt að venjast þar sem þessi dáði brjál­æðingur er annars vegar. Röð at­burðanna virkar þannig á mann eins og farið hafi verið eftir ná­kvæmum gát­lista yfir ó­missandi at­riði á veg­ferð Flecks frá mis­lukkuðum trúði yfir í Jókerinn.

Þá má spyrja sig hvort ör­fáar tengingar við sögu Leður­blöku­mannsins hefðu ekki mátt missa sín á því realíska sögu­sviði sem mótað er í myndinni. Eins ein­kenni­lega og það kann að hljóma þá er hér lagt upp með raun­sæja sýn á upp­runa Jókersins; hvernig fjölda­morðingi verður að fjölda­morðingja sem er um leið teikni­mynda­skúrkur. Í myndinni er í raun reynt að þóknast öllum, að­dá­endum Leður­blöku­mannsins en líka öllum hinum. Ó­skandi hefði verið að að­eins önnur hvor leiðin hefði verið valin.

Niður­staða: Þrátt fyrir fyrir­sjáan­legt hand­rit gera meistara­taktar Joaquins Phoenix og Hildar Guðna­dóttur Joker að eftir­minni­legri mynd sem geldur fyrir til­raunir til þess að þóknast sem flestum.

Phoenix sækir styrk sinn ekki síst í einstaka tónlist Hildar Guðnadóttur.
Fréttablaðið/Skjáskot