Bohemian Rhapsody
****
Leikstjórn: Bryan Singer
Aðalhlutverk: Rami Malek, Lucy Boynton, Gwilym Lee, Ben Hardy, Joe Mazzello

Árið 1970 gekk sá goðsagnakenndi söngvari Freddie Mercury til liðs við gítarleikarann Brian May og trommuleikarann Roger Taylor og þegar bassaleikarinn John Deacon bættist í hópinn varð hljómsveitin Queen til. Og þarna byrjar líka kvikmyndin Bohemian Rhapsody sem rekur samþjappaða sögu hljómsveitarinnar og hverfist vitaskuld fyrst og fremst um Mercury.

Sjá einnig: Drottningin í öllu sínu veldi

Þótt ég sé ekkert átakanlega gamall maður þá gerðist þetta ári áður en ég fæddist í þennan heim. „And the rest is history“ eins og þar segir og vissulega er saga sveitarinnar og söngvarans fyrirtaks efniviður í bíómynd. Ekkert vantar upp á dramatíkina og í þeim efnum hefði mátt ganga enn lengra en hér er gert.

Ég var tíu ára gamall þegar ég eignaðist plötuna Queen Great­est Hits og í kjölfarið mína fyrstu uppáhaldshljómsveit. Platan var varla búin að fara nema eina umferð þegar ég áttaði mig á að tímabært væri að ég þróaði minn eigin tónlistarsmekk og hætti að elta pabba minn. Sem sagt út með Bítlana, inn með Queen.

Plötuna spilaði ég með vinum mínum og litlu systur þangað til hún varð nánast að engu og A- og B-hliðarnar runnu saman. Myndinni lýkur um það bil sextán árum eftir að hún hófst, á stórkostlegri frammistöðu Mercury og hinna þriggja á hinum sögulegu Live-Aid-tónleikum 1985. Þá var ég fjórtán ára gamall og man þann dag og beinu útsendinguna enn í smáatriðum.

Sjá einnig: Queen er leiðinleg hljómsveit sem ekkert varið er í

Þá var ég búinn að skipta Queen út fyrir Duran Duran sem uppáhaldshljómsveit en Freddie var sem betur fer svo frábær að ég lifði af skömmina og bömmerinn sem rammfalskur Simon Le Bon kallaði yfir okkur Duran-krakkana.

Yfirlýsing um vanhæfi

Síðan liðu nokkur ár og AIDS dró Freddie, 45 ára, til dauða 1991. Ég man enn hvar ég var þegar ég heyrði andlátsfréttina. Ég var nýbúinn að leggja bílnum mínum við íþróttahúsið í Digranesi, var að reykja sígarettu út um gluggann, með Bylgjuna í gangi í útvarpinu, og velti fyrir mér hvort ég ætti að nenna að mæta í leikfimitíma í MK.

Þá tilkynnir einhver Bylgjulúðinn glaðhlakkalegur mjög að Freddie Mercury sé dauður, úr AIDS hvorki meira né minna! Dánartilkynninguna kláraði hann svo með því að spila Who Wants To Live Forever, með Queen. Hver vill lifa að eilífu hvort eð er? Voða fyndið.

Sjá einnig: Harðkjarninn sáttur við skekkta Queen-myndina

Ég felldi tár, kastaði sígarettunni út um gluggann og brunaði eitthvert út í buskann á meðan ég hugsaði með mér að ég ætlaði aldrei framar að niðurlægja mig með því að mæta í leikfimi. Stóð við það og eftir að hafa horft á Bohemian Rhapsody í bíó hef ég aldrei verið ánægðari með þessa ákvörðun þótt hún hafi kostað mig heljarinnar vesen og tafið útskrift.

Ef einhvern kjarna, boðskap, má finna í þessari mynd er það nefnilega móttó Mercurys; að láta aldrei neinn segja sér hver hann ætti að vera eða hvað hann ætti að gera.

Finnst bara rétt að taka þetta allt fram til þess að árétta að í raun er ég vanhæfur til þess að fjalla um þessa mynd. Ég tengist einfaldlega tónlistinni sem keyrir hana áfram, sögutímanum og viðfangsefninu allt of sterkum tilfinningaböndum.

Þá má einnig halda því til haga að þótt ég kunni flest lög Queen fram og til baka þá sökkti ég mér aldrei sérstaklega ofan í sögu sveitarinnar. Ég hafði ekki einu sinni hugmynd um að Mercury væri hommi fyrr en eftir að hann dó.

Sjá einnig: Útskýrir hvers vegna Cohen lék ekki Freddie Mercury

Enda var mér bara alveg sama. Hef aldrei séð ástæðu til þess að vega og meta fólk á grundvelli neins annars en því sem það gerir og hvernig það gerir það. Þar fyrir utan var bara ekkert athugavert við karlmann, beran að ofan, með yfirvaraskegg, í rauðum leðurbuxum og Adidas Universal-strigaskóm þegar ég var unglingur. Þannig að Mercury var bara drullusvalur.

Látið Queen rokka ykkur

Mögulega stuðlar þessi vanþekking mín á sögu Queen og Mercury að því að mér finnst þessi mynd jafn æðisleg og raun ber vitni. Fyrir liggur að mjög frjálslega er farið með staðreyndir, skautað fram hjá hyldjúpu sukki söngvarans og atburðum raðað í kolskakka tímaröð til þess að hámarka dramatíkina.

Og það er ekkert að því. Bohemian Rhapsody er ekki heimildarmynd og nýtir rafmagnaða sögu hljómsveitarinnar, magnaða há­punkta og frábæra tónlist Queen til þess að heilla og skemmta áhorfendum. Bara nákvæmlega það sama og Mercury gerði.

Myndin er síður en svo gallalaus en hún er fyrst og fremst ofboðslega skemmtileg, hart keyrð og rígheldur. Rami Malek er á köflum skuggalega líkur Mercury og er æðislegur í túlkun sinni á persónunni, sem þarf ekkert endilega að vera 100% Mercury. Sama má segja um þá sem leika restina af bandinu. Þeir eru glettilega líkir frummyndunum og skila sínu með sóma.

Framlag Queen á Live Aid er síðan einfaldlega eins og sérhannaður hápunktur á bíómynd og það atriði er gersamlega snarsturlað í öllum sínum mikilfengleika. Nákvæm endurgerð á yfirþyrmandi flottu mómenti í tónlistarsögunni og kjarnar tilgang myndarinnar. Þið eigið bara að fara og sjá hana og njóta þess að láta Queen rokka ykkur.

Ef ég væri heiðarlegur gagnrýnandi hefði ég eytt meira plássi í að finna að hinu og þessu og gæfi myndinni verðskuldaðar þrjár stjörnur en þar sem ég var með gæsahúð nánast alla myndina, fór í gegnum fjórar arkir af snýtibréfi og grét með ekkasogum þegar Malek tók We Are the Champions í restina finnst mér viðeigandi að hafa stjörnurnar jafn margar.

Niðurstaða: Hraðsoðin, einfölduð og sótthreinsuð mynd af einni stórkostlegustu rokkstjörnu síðari tíma. Fantavel leikin, áferðarfögur og fyrst og fremst frábær skemmtun sem keyrir tilfinningar þeirra sem fatta galdurinn alveg í botn.