Kvikmyndir

Rambo: Last Blood

★★

Leikstjórn: Adrian Grunberg

Aðalhlutverk: Sylvester Stallone, Yvette Monreal, Sergio Peris-Mencheta, Paz Vega

Sylvester Stallone var 36 ára gamall þegar hann lék Rambó í First Blood 1982, við slíkar vinsældir að það var engin leið að hætta. Ekki séns og síðan eru liðin 37 ár.

Stallone er orðinn 73 ára og þótt þeir Rambó hafi látið nokkuð á sjá eru þeir óbugaðir og mættir alveg snarsnælduklikkaðir í fimmtu Rambó-myndinni sem er full glannalegt frávik frá þeirri ágætu formúlu sprenginga, limlestinga og meitlaðra en grunnra töffarafrasa sem gerðu Rambó að stórmerkilegu menningarfyrirbæri.

Rambo: Last Blood bendir því miður til þess að Stallone og vöðvastæltur fortíðardraugurinn hans hafi svosem engu gleymt nema kannski bara öllu sem Rambó hafði lært frá því hann barðist fyrir þjóð sína í Víetnam, lagði bandarískan smábæ í rúst í First Blood, leiðrétti einn síns liðs tapið í Víetnam-stríðinu í First Blood Part II og gekk, með forverum Talíbananna, milli bols og höfuðs á Rússum í Afganistan í Rambo III. Að maður tali ekki um æðiskastið sem hann tók í Búrma 2008 þegar hann slátraði herskara sadískra drullusokka með eftirminnilegum djöfulgangi í fjórðu myndinni, Rambo.

Eftir þá grótesku sprengjuveislu virðist hann hafa róast töluvert þar sem hann er nú sestur í ruggustól föður síns á ættaróðalinu í Arizona og virðist helst hafa dundað sér við að grafa stríðsgöng undir búgarðinum, smíða og skerpa flugbeitta hnífa og ganga í hjáverkum ungri dótturdóttur mexíkanskrar ráðskonu pabba síns í föðurstað.

Í honum Rambó bærast nefnilega merkilega viðkvæmar taugar og mannlegar tilfinningar og nú hefur hann líka gengist við því að vera stórskaddaður andlega eftir alla drápsleiðangrana. Hann bryður meira að segja geðdeyfðarlyf af þeirri einurð og festu sem hafa einkennt öll hans störf og dráp í gegnum tíðina.

Þannig kemur hann í veg fyrir að gamlar kenndir vakni og upp úr honum sjóði, eins og hann orðar það sjálfur. En ekki fær hann flúið sjálfan sig og örlögin frekar en við hin dauðlegu og þegar mexíkóskir mansalsdólgar, hreinræktuð illmenni, hneppa kjördótturina í kynlífsþrældóm kraumar í Rambó blóðið svo upp úr sýður og ætla mætti að myndin hrökkvi nú loks í gang.

Anar þá ekki okkar maður eins og flón með enga stríðsreynslu yfir landamærin þar sem hann mætir aldrei þessu vant ofurefli. Þessi hildarleikur er svo svakalegur að Rambó verður meira að segja viðskila við hnífinn sinn góða sem við hann er kenndur og hefur ítrekað bjargað honum fyrir horn.

Afleiðingarnar eru enda næstum jafn skelfilegar og þegar Þór glataði Mjölni. Heimur Rambós ferst bókstaflega og fullur vantrúar horfir maður í sjokki upp á þessi ósköp á meðan maður finnur óbilandi trúna á Rambó, Sly og myndabálkinn fjara út.

Rambo 5 er ein og hálf klukkustund og Stallone er allt of lengi að finna neistan sem kippir Rambó í gír og sýnir allt sem í honum býr þannig að í raun er Rambó-myndin sem þarna leynist ekki nema hálftíma löng stuttmynd.

Stallone missir sig þó sem betur fer gersamlega í sturluðu og stórkostlegu lokauppgjörinu og býður til slíkrar haustslátrunarveislu að harðasta Rambó-liðið er skilið eftir hrist og hrært þegar hetjan okkar veður yfir öll mörk velsæmis og skynsemi við undirleik The Doors.

Í þessum hálftíma hálfvitagangsins rennur hefðbundið Rambó-blóðbað saman við pyntingaklámið í Hostel og myndin umturnast í Home Alone fyrir fullorðna og miklu lengra komna. Eða af göflunum gengna.

Þessari ofbeldisorgíu hefði auðveldlega mátt dreifa yfir alla myndina og samt hefðu einhverjir útlimir og innmatur getað orðið afgangs en í tættum pylsuendanum leynist einhver undarleg fegurð þannig að maður kveður Rambó helsáttur og alveg til í eftirrétt. Auðvitað þarf svo ekki að taka fram að þetta partí er ekki haldið fyrir aðra en þá sem skilja, fíla og kunna að meta Rambo, John. J.

Niðurstaða: Rambo: Last Blood er óvenjuleg Rambó-mynd. Það er ekki gott vegna þess að kappanum er ekkert annað til lista lagt en að drepa vonda kalla í akkorði. Stallone truflar því jafnvel hörðustu aðdáendur andhetjunnar með þessari mynd en bætir það svo hressilega upp á síðasta subbulega hálftímanum að, ehhhh… mætti maður biðja um aðeins meira?