Bíódómur

Better Call Saul, 6. sería

Leikstjóri: Vince Gilligan

Aðalhlutverk: Bob Odenkirk, Rhea Seahorn og Jonathan Banks

Sögu hins hnyttna en vafasama lögmanns Jimmy McGill, betur þekkts sem Saul Goodman, er loksins lokið en þrettándi og síðasti þáttur sjöttu seríu var sýndur á Stöð 2 í vikunni.

Þótt það hljómi klisjukennt mætti frekar líkja lokaseríu Better Call Saul við einhvers konar listaverk en sjónvarpsþáttaröð en hver ein og einasta persóna í þáttunum hefur tilgang og enginn leikaranna skilar hlutverki sínu illa. Þetta á jafnt við Bob Odenkirk sem Saul Goodman, Jonathan Banks sem Mike Ehrmantraut, Rhea Seahorn sem Kim Wexler og Giancarlo Esposito sem Gus Fring.

Bob Odenkirk ásamt Giancarlo Esposito á setti.

Þegar Breaking Bad þættirnir luku göngu sinni fyrir níu árum hefðu líklega fáir veðjað á að höfundurinn, Vince Gilligan, myndi næst beina spjótum sínum að forsögu hins óprúttna svikara Saul Goodman sem fór þó vissulega með himinskautum sem mikilvæg aukapersóna. Hvers vegna ekki frekar framhaldssería um Jessie Pinkman?

Sjö árum eftir að gerð Better Call Saul þáttanna hófst er hins vegar morgunljóst að auðvitað vissi maðurinn að baki Walter White upp á hár hvað hann var að gera. Better Call Saul seríurnar sex eru nefnilega fullkomin spegilmynd Breaking Bad þáttaraðanna fimm.

Því hefur verið velt upp í erlendum miðlum að þættirnir séu síðustu þættir sinnar tegundar; hægbrennandi dramaþættir þar sem mannlegt eðli persónanna og þroskasögur eru í forgrunni og ekki síst keyrðar áfram á samtölum.

Vince Gilligan tók sér enda nægan tíma, heilar sex seríur, til að spinna og hnýta saman forsögu Saul Goodman. Sú staðreynd ein og sér er til marks um hversu mikið er undir í þessari síðustu seríu og enginn ætti að verða fyrir vonbrigðum.

Þau Rhea Seahorn og Bob Odenkirk gera þau Kim Wexler og Jimmy McGill ódauðleg í þáttunum.

Myndatakan er einnig einstök þar sem Gilligan og félagar leyfa sér að láta hana njóta sín og leyfa myndefninu að lifa á skjánum þannig að það þjóni söguþræðinum. Þannig verða glöggir áhorfendur ekki sviknir af því að fylgjast vel með þeim senum þar sem Gilligan verðlaunar þá með því að opinbera á lokametrunum hvernig margt sem áður gerðist var fyrirboði þess sem koma skyldi. Enginn nema Vince Gilligan getur fært manni slíkt sjónvarp.

Þegar undirritaður horfði á allra síðasta þáttinn af Better Call Saul fannst honum svolítið eins og hann væri að kveðja gamlan félaga. Síðustu fjórtán ár hefur Breaking Bad heimurinn framkallað nýjar víddir í sjónvarpsefni. Framtíð sjónvarpsefnis virðist á leið í aðra átt, sökum hraða nútímans og æ stækkandi streymisveitumarkaðar, en við munum alltaf eiga þessar tvær seríur; um þá Saul Goodman og Walter White.

Niðurstaða: Lokaserían af Better Call Saul er jafnframt sú besta. Aðdáendur sitja hnuggnir eftir yfir því að þetta sé allt saman búið og lokahnúturinn á Breaking Bad loksins hnýttur.